150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

dagskrá fundarins.

[13:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hefur komið fram hérna en vil jafnframt vekja athygli á einu og það er að hæstv. forseti hefur óskað eftir því að aðeins þeir sem ætla að taka þátt í umræðu um næsta dagskrármál séu inni í þingsal hverju sinni sem og að það sé langt á milli þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslu, að það sé verið að skapa mikið rúm til að reyna að verja þá sem hér starfa eftir fremsta megni. Það er verið að fjölga fjarfundum og þess vegna vekur það pínulítið furðu mína að sömu þingflokkar fjölmenni inn í þennan þingsal, að hliðarherbergin séu full af fólki þegar við erum með þá aðstöðu að geta verið í þingflokksherbergjum okkar og á skrifstofum okkar til að fylgjast með dagskránni.

Nú þegar er einn þingmaður í sóttkví. Starfsmenn eru í sóttkví. Ég held að við ættum að bera það mikla virðingu hvert fyrir öðru og fyrir því mikilvæga starfi sem fer fram í þessum þingsal að bera virðingu fyrir þeim reglum sem forseti þings og skrifstofustjóri reyna að setja hérna og takmarka eins og við frekast getum viðveru okkar í þingsal nema bara rétt á meðan við þurfum að taka til máls. Ég held að það sé heillavænlegast fyrir okkur öll til að störf þingsins geti farið fram með eins eðlilegum og nauðsynlegum hætti og hugsast getur.