150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

dagskrá fundarins.

[13:40]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég verð að gera athugasemdir við dagskrána eins og hún lítur út og okkur hefur verið kynnt. Við erum stödd á þinginu í mjög óvenjulegu ástandi og ýmsar ráðstafanir á döfinni og hafa verið gerðar til að takmarka það að fólk hittist hér og sé of mikið á ferðinni og allt það. Við tökum eðlilega bara nauðsynleg mál fyrir til að bregðast við ástandinu, við tökum við þeim frá ríkisstjórninni með mjög litlu samráði við stjórnarandstöðuna. Eru fundir með stjórnarandstöðunni um þau mál sem á að leggja fram? Nei, þau eru lögð fram og við eigum að afgreiða þau í þingsalnum.

En hvað gerist svo? Það eru ekki bara þau mál heldur er lætt inn öðrum málum eins og til að mynda þjóðlendumálinu á meðan fjöldi mála bíður afgreiðslu. Fjöldi annarra mála bíður afgreiðslu, eðlilega.