150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

aðgerðir í efnahagsmálum.

[13:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir jákvæða hvatningu á þessum tímum og skal vinda mér beint að efninu. Það er rétt að við sjáum alls staðar í kringum okkur, nágrannalöndunum og víðar, að ríkisstjórnir grípa til umfangsmikilla aðgerða. Við höfum í sjálfu sér þegar hafist handa og Seðlabankinn sömuleiðis. Með því sem Seðlabankinn hefur gert að undanförnu er tryggt að fjármálakerfið getur betur sinnt hlutverki sínu við þær þröngu aðstæður sem fyrirtækin búa við.

Spurt er um tryggingagjaldið og það er meðal þess sem við erum að skoða. Það er spurt sérstaklega hvort það verði fellt niður. Slík ákvörðun liggur ekki fyrir en gjalddögum vegna tryggingagjalds hefur hins vegar þegar verið frestað. Ég vil nefna að það getur komið til þess á síðari stigum að frestuðu tryggingagjaldi sem menn telja ekki raunhæft að innheimta verði þá breytt í einhvers konar stuðning. En ég verð að segja að tryggingagjaldsleiðin má sín lítils við hliðina á annarri stórri aðgerð sem er verið að ræða hér í dag og við þurfum að fara miklu nánar ofan í saumana á, sem snertir það sem hv. þingmaður spyr um sem er hinn beini stuðningur.

Í þinginu í dag er verið að ræða um mál þar sem ríkið er að bjóðast til þess hreinlega að taka fólk í raun og veru á launaskrá, að fyrirtæki haldi ráðningarsambandinu í gildi en ríkið taki að sér að greiða stóran hluta launanna í gegnum stuðningskerfi. Það er ekkert annað en beinn stuðningur. Hann mun líka ná til einyrkja. Einyrkjar munu njóta góðs af því, eins og við getum kallað þá, einyrkjar eða sjálfstætt starfandi. Það mun þurfa að fara vel ofan í saumana á því úrræði, sem mér sýnist á öllu miðað við það hvernig mál hafa þróast undanfarna sólarhringa að það geti þurft að útvíkka úrræðið eins og það er kynnt hér sem sérstakt frumvarp.

Ég vona að ég hafi svarað þessu með tryggingagjaldið og um beinan stuðning og eins því sem snýr að sjálfstætt starfandi.