151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

aflétting sóttvarnaaðgerða.

[15:33]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Síðastliðið ár hefur reynt allverulega á seiglu þjóðarinnar og ég verð að segja að mér hefur fundist samstaða þjóðarinnar hafa verið aðdáunarverð. Nú skiptir auðvitað miklu að við höldum áfram og gerum vel og að fólk haldi út þegar við erum farin að sjá til lands. En margir hafa skiljanlega miklar áhyggjur af afkomu og velferð og þar hefur einhver fyrirsjáanleiki þýðingu. Á tímum Covid mætti kannski orða það sem svo að einhver fyrirsjáanleiki sé það sem hægt er að biðja um því að hann er auðvitað stórt atriði fyrir fyrirtæki í rekstri sem þurfi að geta metið, þótt ekki sé nema bara gróflega, tekjur og útgjöld, en hann er líka nauðsynlegur fólkinu í landinu, unga fólkinu og því gamla sérstaklega, vil ég leyfa mér að segja.

Í nágrannalöndum okkar, Danmörku og Noregi, hafa stjórnvöld birt svokallaðar afléttingaráætlanir. Danir hafa ákveðið að taka ákveðin skref í átt til fyrra lífs þegar bólusetningu 50 ára og eldri verður lokið, og Norðmenn hafa kynnt áætlun sem tekur gildi í skrefum til júníloka og birta þá með því áform, áætlanir sem ætlað er að veita ákveðinn fyrirsjáanleika, auðvitað með eðlilegum fyrir fyrirvara, því að öll ríki glíma því miður við sömu stöðu að þessu leyti að allar áætlanir eru með fyrirvara um breytingar sem við stjórnum illa.

Stuðningur við aðgerðir og ráð sóttvarnayfirvalda hefur reynst okkur gríðarlega vel og ég vil leyfa mér að segja að þessi nálgun og þessi fyrirspurn snýst ekki um það, ekki um neinn afslátt af sóttvarnaaðgerðum, heldur um hina hliðina á peningnum. Ríkisstjórnin hefur sett upp bólusetningardagatal, sem er af hinu góða, líka auðvitað með fyrirvara, eðli máls samkvæmt. Ég vil því spyrja um eitthvert dagatal um opnanir, einhverja markvissa opinbera áætlun í því sambandi, einhverja sýn um það hvaða árangri þurfi að ná með tilliti til aldurs og annarra þátta; hvað gerist ef það tekst, hvað gerist ef það tekst ekki o.s.frv.? Þannig að spurningin er einfaldlega þessi til hæstv. forsætisráðherra: Sér hún fyrir sér að birta slíka áætlun um afléttingu í samhengi við bólusetningar?