151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

samningar við sérgreinalækna.

[15:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég ítreka samt sem áður það sem var hluti spurningar minnar, þ.e. hvort ráðherra geti frá sínum bæjardyrum séð lýst því hvaða atriði það eru sem gera það að verkum að samningar hafa ekki náðst, að við erum í stöðu sem þurft hefur að bregðast við með tímabundnum ráðstöfunum. Og síðan: Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér sem framtíðarfyrirkomulag? Eða sér hún fyrir sér framtíðarbreytingar á því fyrirkomulagi sem hér hefur verið við lýði? Mér finnst mikilvægt að það komi fram. Ég geri mér grein fyrir því að reglugerðin er enn í vinnslu og vonandi er staðan sú að áfram sé í gangi einhver viðleitni til að reyna að ná samningum. En það væri hins vegar mjög gott ef hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur um þessi atriði.