151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

um fundarstjórn.

[15:48]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Mig langaði til að koma hér upp til að ræða um vinnubrögð þingsins. Við erum með til meðferðar í dag fjögur stjórnarfrumvörp, sem eru í reynd að koma fyrir þingið öðru sinni vegna þess að öll eiga þessi mál það sameiginlegt að hafa áður verið lögð fram af þingmönnum stjórnarandstöðu. Og öll eiga þessi mál það sameiginlegt að koma fram í nánast sama búningi alveg óbreyttum eða lítillega klæðskerasniðin. Í flestum þessara mála eru töluvert miklir hagsmunir að baki. Ég nefni mál sem ég lagði fram í nóvember í fyrra, mál sem varða réttarbætur barna vegna barnaníðs á netinu. Mig langar til að ræða það hér hvort það geti verið að við getum sammælst um að ætla að vinna með öðrum hætti en þessum og hvort við getum kannski farið að bera virðingu fyrir því að við erum stundum að vinna saman að góðum málum og hvort málin hér í þinginu megi þá ekki stundum njóta þess í stað þess að liggja í frystingu.