151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

um fundarstjórn.

[15:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar ég var í framhaldsskóla spilaði Skítamórall oft á böllunum hjá okkur og skemmtilegasta atriðið hjá þeim var Syrpan svokallaða þar sem þeir tóku með sínu nefi ýmis íslensk og erlend dægurlög og fluttu okkur framhaldsskólanemunum. Ég fæ sömu tilfinningu þegar ég sé dagskrá fundarins í dag og ég fékk þá, nema við erum ekki í Njálsbúð árið 1996, við erum á Alþingi Íslendinga. Og það sem ríkisstjórnin býður okkur er endurflutningur á fjórum góðum þingmálum stjórnarandstöðunnar, vegna þess að fólk er svo ofboðslega fast í þeim förum að ekki megi samþykkja tillögur ef þær koma úr vitlausri átt. Það á frekar að geyma þær í eitt ár, hálft ár, alla vega nokkra mánuði, til að leggja þær fram efnislega óbreyttar og þá er hægt að samþykkja þær. Þetta er bara lélegt, herra forseti. Þetta er ofboðslega lélegt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)