151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýddi með athygli á svar hv. þingmanns og er virkilega að leggja mig fram við að reyna að skilja hann rétt. Ég skildi svar hans sem já, að hann teldi það vera mannúð að það væru refsingar við vímuefnaneyslu og það væri mannúðlegt að refsa fólki sem á í vandræðum með vímuefnaneyslu. Þannig skildi ég málflutning hv. þingmanns. En einhvern veginn í ósköpunum tekst honum að taka hugtökin refsingu og hjálp og gera þau að einu og hinu sama. Það stendur ekki í lögunum að það eigi að hjálpa vímuefnaneytendum, virðulegi forseti. Það stendur að þeim eigi að refsa. Það er það sem er verið að laga hér. Hv. þingmaður hefur ekki efni á að predika yfir öðrum um orwellska orðanotkun meðan hann talar svona.