152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Á dögunum kynnti Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra þau áform ríkisstjórnarinnar að hækka það hlutfall sem ríkið mun endurgreiða framleiðendum vegna kostnaðar sem fellur til hér á landi vegna kvikmyndagerðar. Þetta hlutfall er 25% í dag en verður 35%. Þetta finnst mér mikið fagnaðarefni og vil hrósa ríkisstjórninni og ráðherranum fyrir að stefna að þessari breytingu. Á þetta hefur verið þrýst í talsverðan tíma en undirtektir voru dræmar í tíð fyrri ráðherra að mér fannst. Endurgreiðslan verður háð skilyrðum sem mér sýnast vera skynsamleg og ef það þarf að sníða einhverja agnúa af þá gerum við það hér í þinginu og gerum þá gott mál betra. Auðvitað geta svona ívilnanir verið viðkvæmar út frá jafnræðissjónarmiðum og fyllilega rökréttar spurningar vakna um hvers vegna þetta sé gert í þessari atvinnugrein en ekki einhverjum öðrum. Fyrir þessu eru ákaflega góð rök og ég er þeirrar skoðunar að þetta geti orðið gríðarleg lyftistöng fyrir öfluga atvinnugrein með umtalsverðum jákvæðum hliðaráhrifum. Kvikmynda- og þáttaframleiðendur hafa augastað á Íslandi út af einstakri náttúru m.a. en ef það er dýrara að koma í íslenska náttúru til að framleiða efni þá fara menn bara til annarra landa eða fækka tökudögum á Íslandi og einfalda framleiðsluna. Það þýðir að við verðum alfarið af fjármagninu eða þá að umsvifin minnka og ekki síst verðum við af stórkostlegri landkynningu, en þau verðmæti teljast í milljörðum króna fremur en milljónum. Þá er vert að hafa í huga að erlend kvikmyndaframleiðsla á Íslandi og hefðbundinn íslenskur fjölmiðlarekstur eru nátengd fyrirbæri. Fjölmargir einyrkjar og fyrirtæki starfa í báðum geirum. Aukin umsvif í kvikmyndagerð með tilheyrandi stækkun og fjölgun íslenskra framleiðslufyrirtækja styrkir því þann grunn sem íslenskir hefðbundnir fjölmiðlar standa á faglega og fjárhagslega. Kakan stækkar, hugmyndum fjölgar, dýnamíkin eykst og á því græða allir. Við Íslendingar eigum að hafa þann metnað, því hér eru allar forsendur til staðar, að stórefla þessa atvinnugrein. Hún hefur alla burði til að vera ein mikilvægasta stoðin í útflutningi okkar. (Forseti hringir.) Ég fagna því mjög að ráðherra menningarmála og ríkisstjórnin sé að stíga þetta skref og styð málið heils hugar.