152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

leigubifreiðaakstur.

470. mál
[14:58]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þetta svar. Það gleður mig mjög ef undanþáguna má skilja sem svo að þetta svigrúm verði til staðar. Það gleður mig mjög og ég held að það sé til mikilla bóta. Mig langar aðeins að velta upp 5. gr. frumvarpsins. Mig langar að spyrja ráðherra hvort við séum örugglega að passa upp á að tilskilin leyfi til þess að fá að keyra leigubíla hér á landi séu ekki of þröngt skilgreind. Hér er talað um námskeið. Mig langar að fá að forvitnast um hvort gerð sé krafa um íslenskukunnáttu eða eitthvað slíkt. Í sömu grein segir einnig að ráðherra muni setja í reglugerð nánari reglur hvað þetta varðar. Væri gaman að heyra hvað ráðherra sér fyrir sér í því, hversu þröngan ramma við ætlum að sníða í kringum þetta atriði.

Að lokum langar mig að ítreka að ég fagna almennt og yfirleitt öllum skrefum í átt að frelsi í atvinnulífinu þar sem við vitum að það er yfirleitt fyrst og fremst í þágu neytenda þar sem þjónustan til þeirra batnar. Ég vil fá að nota þetta tækifæri og segja sem neytandi leigubílaþjónustu að ástandið er ekki nógu gott. Maður finnur t.d. á konum að þær eru orðnar óöruggar niðri í miðbæ Reykjavíkur, geta ekki treyst á að fá leigubíla o.s.frv. Hér er því líka um gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir samfélagið að ræða.

Mig langar að lokum að fá að spyrja ráðherra: Fyrst þegar þetta frumvarp kom til umræðu rak ég augun í frétt þar sem haft var eftir ráðherra að þrátt fyrir að eiginlega stöðvaskyldu væri ekki að finna í frumvarpinu vildi hann gjarnan ræða hvort einhvers konar þannig útfærsla myndi samt sem áður eiga sér stað. Mig langar að fá að spyrja hvort það var einhver misskilningur því að ég veit ekki betur en að þar væri komin mikil aðgangshindrun sem myndi vinna gegn frumvarpinu. En að öðru leyti þakka ég kærlega fyrir þetta mál.