152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

leigubifreiðaakstur.

470. mál
[15:18]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna framlagningu þessa frumvarps og einnig því að hér er verið að sýna frumkvæði í því að færa þennan markað aðeins meira til frelsisáttar í samræmi við það sem við höfum séð EES vera að beina til Noregs. Þarna er ekki verið að bíða eftir því að EES taki okkur fyrir heldur er verið að bregðast við strax. Það á náttúrlega ekki að þurfa EES til, þó að það sé ágæt svipa, heldur hefur nauðsyn þess að draga úr aðgangshömlum lengi verið til umræðu á þessum markaði. Hér er líka verið að færa ýmislegt til betri vegar, kvaðir og fyrirkomulag sem er að mjög miklu leyti orðið úrelt. Hér hefur t.d. verið rætt um gjaldmælaskyldu. Það er náttúrulega í algjöru ósamræmi við nútímatækni þar sem komnar eru mjög fjölbreyttar og góðar leiðir fyrir þá sem veita þessa þjónustu og þá sem þiggja hana til að semja um verð og fylgjast með verðmynduninni, þiggja ferðir, hafa yfirlit o.s.frv. Maður sér fyrir sér að með þessum breytingum geti þeir aðilar sem fyrir eru á markaðinum, rótgrónir, tekið upp nýja tækni en svo gætu aðrir aðilar líka komið inn. Leigubílstjórar gætu sjálfir orðið sjálfstæðari og notað sínar eigin tæknilausnir. Maður sér fyrir sér mjög mikla nýsköpun á þessu sviði. Ég held að þetta sé þeim mun mikilvægara núna þegar við erum að losna úr Covid-viðjum og það hefur verið mikið hrun í þessum bransa. Það eru margir sem skiluðu einfaldlega inn leyfum og fóru að sinna öðru. Það má alveg giska á að auknar tæknilausnir og fleiri aðilar sem komi inn geti hraðað því að þetta kerfi endurreisist og verði kannski ekki bara eitt kerfi heldur verði meiri flóra.

Við lestur frumvarpsins vöknuðu samt nokkrar spurningar hjá mér en til að lengja umræðuna ekki um of — af því að ég ber traust til þess að farið verði yfir helstu álitamál í nefndarvinnunni — ætla ég kannski aðallega að taka fyrir 8. gr. og sér í lagi í 4. mgr. sem fjallar um skráningarskyldu. Þar er m.a. talað um að rekstraraðilum sé skylt að skrá upphafsstað og endastað allra ferða. Í greinargerð er þetta rökstutt með því að orðið hafi ákveðin hefðarmyndun meðal þeirra sem stunda leigubílaakstur eða reka leigubílastöðvar að skrá þetta niður. Þannig virðist meiningin að lögbinda ákveðna hefð sem hefur myndast. En rökin fyrir þessari skráningu eru líka gefin upp í frumvarpinu, t.d. er talað um öryggisástæður, að það sé líka neytendum í hag, eftirlitsaðilum eða lögreglu eða öðrum sem þurfa að hafa eftirlit. Það sé gagn í því að geta skoðað eftir á hvaða ferðir hvaða bílstjóri fór og geta sannreynt að ákveðin ferð hafi farið fram á ákveðnum tíma.

Ég velti fyrir mér tilganginum með því yfir höfuð að lögfesta þessa kvöð og rökstuðningnum og kannski einnig ákveðinni þversögn sem ég kom auga á. Í greinargerð er sagt að leigubílstjórastöðvar hafi verið að skrá þetta af öryggisástæðum og líka af viðskiptalegum ástæðum, það sé þægilegt fyrir stöðina að hafa yfirsýn yfir þessar ferðir. Í lögunum er sagt að óheimilt sé að vinna þessar upplýsingar í öðrum tilgangi en þeim að tryggja öryggi, stuðla að neytendavernd og til að viðhafa megi eftirlit. Þversögnin sem ég sé þarna er sú að verið er að binda í lög ákveðna hefð eða iðju sem þessar stöðvar hafa stundað en samt verið að taka út hluta af ástæðunni fyrir því að stöðvarnar hafa stundað þetta. Út frá þessum þversögnum og út af persónuvernd sá ég að bent var á það í umsögn í samráðsgátt, og hefur verið bent á áður þegar frumvarpið var lagt fram, að tilgangurinn með slíkri skráningu sé ekki nógu skýr.

Maður veltir náttúrlega líka fyrir sér samanburði við aðra markaði eða aðrar lausnir. Við höfum séð mjög mikla aukningu í rafskutlum, sá markaður hefur blómstrað mjög mikið. Það er mjög auðvelt að panta og borga fyrir slíkar ferðir með símanum og það eru margir aðilar sem reka slíka þjónustu. Ég hef sterkan grun um að þessir aðilar séu að skrá mjög mikið niður um allar ferðir sem farnar eru, til að geta greint það í viðskiptalegum tilgangi. Það mætti kannski horfa til þess hver raunin er þar, svo kannski líka, fyrst fram kemur að nú þegar er verið að skrá ýmislegt á þessum stöðvum, hvernig þetta samræmi er þar.

Ég vil aftur þakka fyrir þetta frumvarp. Ég vona að það verði í meginatriðum að lögum.