152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

leigubifreiðaakstur.

470. mál
[15:34]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Það er með ánægju sem við ræðum hér frumvarp til breytinga á lögum um leigubifreiðaakstur, sem er mikilvægt framfaramál. Ég tek undir það, sem áður hefur komið fram hjá hv. þingmönnum, að það væri samt betra að vera ekki að ræða þetta, við værum þá að klára málið. Sem formaður hv. umhverfis- og samgöngunefndar hef ég svolitlar áhyggjur af því hve langt er liðið á þingið en lýsi mig um leið alveg reiðubúinn til að leggja mikið á mig, og ég veit að nefndarmenn eru til í það, til að reyna að klára málið. Þetta er stórt og umfangsmikið mál og hægt er að fjalla um það út frá mörgum atriðum eins og gert hefur verið hér í dag. Ég held að við séum öll sammála um að við viljum auka frelsið og möguleikana til að bæta þjónustuna og að fleiri eigi möguleika á að koma fram með sínar lausnir. Um leið viljum við líka tryggja viss gæði og öryggi og ekki síst atvinnuöryggi þeirra sem eru í greininni núna. Við þurfum líka svolítið að meta hve mikla vinnu við eigum að setja í að ræða þessa þætti umfram þá miklu vinnu sem ráðuneytið hefur lagt í að undirbúa þetta með starfshópum. Þetta hefur oft verið tekið fyrir og samtöl hafa átt sér stað og frumvarpið hefur tekið breytingum og annað slíkt. Það er ekki hægt að segja að frumvarpið sé alveg nýtt. Reynt hefur verið að fara bil beggja eins og hægt er um leið og verið er að mæta kröfum ESA. Við verðum aðeins að meta þetta, hvort ekki sé til mikils að vinna að klára frumvarpið þó að við botnum ekki alveg til enda þá umræðu sem farið hefur fram hér í dag.

Ég vil þó segja í þessum málum, og bara benda á það, að það er svolítið erfitt að ræða þetta svona þröngt út frá leigubifreiðaakstri. Bara frá því að þetta frumvarp kom fyrst fram og frá því að starfshópurinn var settur á laggirnar hefur ekkert lítið breyst á þessum markaði. Allt í einu eru komin hopphjól hér út um allt sem hefur mikil áhrif á leigubíla. Það eru komnir deilibílar. Ferðamönnum hefur fjölgað töluvert og svo fækkaði þeim og svo er þeim að fjölga aftur. Og hvað ætli það séu margir sem eru búnir að fara í gegnum leiðsögumannaskólann og eru að leiðsegja á bílum og annað slíkt? Fólk er alltaf að hanna nýja þjónustu, er alltaf að finna sér leið til atvinnusköpunar og verðmætasköpunar þannig að samfélagið þróast. Almenningur er svo öflugur að hann sér hvar holur eru í kerfinu og hann finnur lausnir og tækifæri í því. Þetta gerist allt þó að við höfum ekki breytt lögum um leigubifreiðaakstur. Áhrifin eru gríðarleg og við megum ekki festast um of í því að hugsa þröngt um leigubíla.

Þó að öll þessi þróun sé í gangi held ég að alltaf verði markaður fyrir hinn venjulega leigubíl. Það er það sem ferðamennirnir þekkja og það er það sem hentar mörgum. Það eru ekki allir að fara að nýta sér tæknina til að panta leigubíl. Svo er annað sem breyttist töluvert í þessu, þ.e. þegar við förum að blanda tveimur atvinnugeirum saman sem báðir eru að horfa á starfsöryggi síns fólks og reka báðir þjónustu sem við viljum öll að lifi áfram og sé örugg. Ég er þarna að tala um sendibifreiðar og svo leigubifreiðar. Hvað gerðist í Covid-faraldrinum? Jú, þá byrjaði netverslun á fullu, t.d. með matvöru og alls konar aðra vöru. En ferðum fólks fækkaði. Þá þurftu menn að geta brugðist hratt við. Netverslunin þurfti að geta verslað við leigubílstjórann fram hjá sendibílstjóranum. Þá var hægt að nýta það, eða mátti það ekki? Þurfti netverslunin að fara að kaupa sína bíla sem stóðu kannski tómir hálfan daginn, eða var hægt að álagsstýra? Það þarf að vera frelsi fyrir þessar stéttir til að bregðast við breytingu á markaðnum. Við verðum bara að sætta okkur við að þróunin er á fleygiferð. Þróunin bíður ekki eftir því, og aðstæðurnar sem koma upp, eins og Covid og fjölgun ferðamanna, bíða ekkert eftir því, að við séum búin að breyta einhverjum lögum á Alþingi. Við verðum að hugsa þetta út frá því. Ég held því að við þurfum að reyna að hafa allar takmarkanir eins litlar og við getum svo að bæði sé hægt að þróa þjónustuna fyrir notendurna og til að þeir sem eru í atvinnustarfsemi geti brugðist við, búið til nýja þjónustu og aðlagað sig nýjum aðstæðum.

Þetta er það sem ég vildi koma að í þessu máli. Við þurfum að horfa svolítið vítt yfir sviðið. Þetta er mjög breytilegt og ég vil bara segja hér eitt dæmi úr starfi hv. umhverfis- og samgöngunefndar: Stór hluti fermingarbarna fékk rafmagnsvespur í fermingargjöf. Þær voru ekki skráningarskyldar, ekki skoðunarskyldar, ekkert prófaðar. Þá var komið til þingsins og sagt að þetta væri ófremdarástand, að foreldrarnir réðu ekki við börnin sín, að þau væru að reiða aðra á vespunum og keyra á gangstéttum og færu ekki eftir reglunum, að þingið hlyti að þurfa að breyta reglunum. Það var erfitt fyrir lögguna að fylgjast með því hvort um væri að ræða rafmagnsvespu eða venjulega vespu og skólunum fannst þetta vera hættulegt. Þingið varð að breyta lögunum. Gerðar voru tvær tilraunir. Við gerðum einhverjar lágmarksbreytingar og gerðum þessi tæki skráningarskyld. Þegar þingið var búið að gera þau skráningarskyld og ræða þetta og Samgöngustofa ætlaði að fara að framfylgja nýju lögunum þá brá svo við að ekkert barn fékk rafmagnsvespu í fermingargjöf, það var bara hætt, það var komið hopphlaupahjól. Þá byrjaði umræðan um að nú þyrfti þingið að fara að setja reglur um hopphlaupahjól. En hvað gerist? Allir eldri borgararnir sem ætluðu að fá sér rafmagnsskútu til að létta undir með sér og auka frelsi sitt þurftu að fara í röðum á skoðunarstofu og skrá rafmagnsskútuna sína og borga 50.000 kall og lentu í bölvuðu veseni með innflutning og annað slíkt.

Við þurfum stundum að hægja á okkur og segja: Fólk verður að bera ábyrgð á sjálfu sér. Þróunin verður að fá að eiga sér stað. Við verðum að reyna að hafa hömlurnar og flækjurnar sem minnstar hér inni. Það eru ekki lög sem bjarga öllu. Vonandi náum við að klára þetta mál og vinna það skipulega og vel í nefndinni. Vonandi náum við að klára þetta mikilvæga mál til þess að neytendur geti fengið betri þjónustu og fólk með nýjar lausnir og nýja tækni geti boðið fjölbreyttari þjónustu og farið í verðmætasköpun og skapað hér atvinnu.