152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

húsaleigulög.

572. mál
[16:03]
Horfa

Helga Þórðardóttir (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Í frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar til hins betra en að mínu mati er ekki gengið nógu langt heldur stigið varfærnislega til jarðar. Það jákvæða við frumvarpið er krafa um skráningarskyldu, skyldu til að gera úttekt á brunavörnum og svo ítarlegri skilgreining á því hvað teljist sanngjarnt og hvað teljist ósanngjarnt í húsaleigusamningum. Þá hefur maður áhyggjur af því að frumvarpið muni í reynd ekki leiða til mikilla bóta fyrir leigjendur. Það er ekki nóg að leggja til matskennt viðmið um að leigusamningur skuli vera sanngjarn. Það veitir enga réttarvernd fyrir fólk, það verða að vera föst viðmið um hversu mikið megi breyta leigusamningum og hve mikið verð megi hækka þegar nýr samningur er gerður eftir að sá fyrri rann út. Þá sýnist mér af greinargerð frumvarpsins að ekki hafi verið haft samráð við Leigjendasamtökin við samningu þess. Maður hefði haldið að þau samtök hefðu verið efst á lista þegar vinna hófst við gerð frumvarpsins og að stjórnvöld hefðu leitað álits samtakanna um hugsanleg áhrif þess og hvort það myndi ná tilsettum tilgangi. Ég vona að stjórnvöld hugi að þessu á kjörtímabilinu og hafi samráð við Leigjendasamtökin ef til stendur að gera frekari breytingar á húsaleigulögum og vona svo sannarlega að samtökin verði kölluð fyrir velferðarnefnd.