152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

húsaleigulög.

572. mál
[16:09]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt að við nýtum næstu misseri til að þróa lagaverkið og regluverkið í kringum leigumarkaðurinn betur. Það er allt of margt sem við vitum ekki. Ég held að ég geti samt sagt að um 60% af markaðnum séu einstaklingar sem eru að leigja frá sér íbúðir, hvort sem það er vegna þess að þeir nýta þær ekki, búa annars staðar, eða að þeir eigi tvær eða þrjár íbúðir. En 40% eru þá hjá stærri félögum á þessum markaði. Um þetta gilda auðvitað mjög ólíkir hlutir. Ef við ætlum að tryggja nægilegt framboð verðum við að gæta þess að við séum ekki að búa til regluverk sem gerir það að verkum að þessi 60%, sem eru þá kannski langstærsti hlutinn, sleppi því jafnvel að vera með íbúðir á leigumarkaði því að þá munum við heldur bæta í vandræðin en hitt.

En á sama hátt getum við líka kannski hvatt til þess að stærri hluti af leigumarkaðnum verði í höndum fagfélaga, óhagnaðardrifinna félaga o.s.frv. sem eru að vinna að því að búa um leigumarkaðinn sem atvinnugrein.