152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

húsaleigulög.

572. mál
[16:27]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég get ekki orða bundist vegna ræðu hv. þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, sem er reyndar farinn úr salnum, sem upplýsti um afstöðu eins stjórnarflokkanna til frumvarpsins. Það var þó ekki ástæða þess að ég bað um orðið en það gaf án nokkurs vafa innsýn inn í samskiptin, kannski er best að orða það þannig, á milli þingflokka stjórnarflokkanna. En látum það liggja milli hluta.

Ég kom hingað upp, frú forseti, til að reyna að átta mig á því með hvaða hætti frumvarpið kæmi til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar og hæstv. innviðaráðherra hefur svarað því að einhverju marki. Eins og þingmönnum er kunnugt urðu lífskjarasamningar m.a. að veruleika vegna stuðnings stjórnvalda við þá með tilteknum aðgerðum sem voru nákvæmlega listaðar upp í plaggi sem hefur verið gefið út af Stjórnarráðinu. Í 11. atriði á þeim lista er fjallað um húsnæðismál og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Ákvæði húsaleigulaga verði endurskoðuð til að bæta réttarstöðu leigjenda, m.a. hvað varðar vernd leigjenda þegar kemur að hækkun leigufjárhæðar og bættri réttarstöðu leigjenda við lok leigusamnings.“

Þessar tillögur eiga rætur sínar að rekja til átakshóps sem starfaði hér fyrir nokkrum árum fyrir stjórnvöld og gerð er grein fyrir í greinargerð með frumvarpinu. Ég tek að sjálfsögðu gild svör hæstv. innviðaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar um það hversu langt þetta frumvarp gengur. En ég kem hér upp með jákvæðum huga. Það má alveg túlka það svo að hér sé um fyrstu skref að ræða og að þörf sé á að safna upplýsingum. Ég deili ekki um þá þörf því að ég held að það sé hluti af vandanum á húsnæðismarkaði hve litlar upplýsingar við höfum haft um uppbygginguna. Það er að breytast og þar höfum við fært Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heimildir til að afla upplýsinga og hafa yfirsýn yfir uppbyggingu húsnæðis um allt land. Ég er sammála því að viðlíka yfirsýn þurfi yfir leigusamninga í landinu. Það er mjög mikilvægt að hafa hana upp á áætlanagerð sveitarfélaga og skipulag á stuðningi ríkisins við uppbyggingu húsnæðis í landinu.

Ég rak hins vegar augun í það að í greinargerð frumvarpsins segir að í framhaldi af vinnu átakshópsins — sem skilaði í ársbyrjun 2019 og afurð hans rann að einhverju leyti inn í loforð ríkisstjórnarinnar vegna lífskjarasamninga — hafi þáverandi félags- og barnamálaráðherra skipað nefnd um endurskoðun löggjafar um húsaleigumál til að fylgja eftir tillögum átakshópsins, og hér er talið upp hverjir hafi setið í þeirri nefnd, og að hlutverk nefndarinnar hafi m.a. verið að taka tillögur nr. 11, sem ég las upp áðan, og 13 í skýrslu stjórnvalda um húsnæðismál til nánari skoðunar og eftir atvikum útfærslu í formi lagabreytinga. Það sem síðan gerist og vekur athygli mína er að frumvarp sem samið er í félagsmálaráðuneytinu, og kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í febrúar 2020, er tekið til umfjöllunar í samráðshópi eða vinnuhópi forsætisráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins og einnig í ráðherranefnd um samræmingu mála. Þar gerist það, ef ég les þessa greinargerð rétt, væntanlega í ráðherranefndinni, að sú áherslubreyting verður að lagt er til að frumvarpið taki aðallega til tillögu nr. 13 þar sem lögð er áhersla á skráningu leigusamninga í opinbera gagnagrunna og útfærðar leiðir til að hvetja aðila til að gera upplýsingar um leiguverð og lengd leigusamninga aðgengilegar, t.d. með því að binda skattaafslátt vegna langtímaleigu við skráningu í gagnagrunnum. Og hér sjáum við frumvarpið sem varð til við þessa áherslubreytingu.

En ég sakna þess enn, frú forseti, að stjórnvöld standi við það loforð sem gefið var á vormánuðum 2019, og ég las hér upp úr plaggi sem Stjórnarráðið gaf út, um að bæta réttarstöðu leigjenda og vernd leigjenda þegar kemur að hækkun leiguverðs. Það er ekki að ástæðulausu að hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson nefndi leiguþakið sem stundum hefur verið nefnt og er verkfæri sem er notað í nágrannalöndum okkar. Það er vissulega útfært með ólíkum hætti. En við vitum líka að við þurfum að hafa sérstaka vernd fyrir leigjendur sem eru, eins og lagaumhverfið er núna, miklu berskjaldaðri á húsnæðismarkaði og búa við miklu minna húsnæðisöryggi en þau okkar sem eigum það húsnæði sem við búum í. Þar á milli er himinn og haf. Það er ósköp einfaldlega komið að því að við stígum skrefið til samræmis við það sem gert er í nágrannalöndum okkar og tryggir velferð fjölskyldnanna í landinu, ekki síst einstæðra mæðra, sem nefndar voru í framsöguræðu hæstv. ráðherra, á leigumarkaði með börn á sínu framfæri og stjórnvöld sjái til þess að ekki sé hægt að skrúfa upp leiguverðið með hvaða hætti sem er.

Ég kem hér upp til að minna á þetta og líka til að minna á að títtnefndir lífskjarasamningar renna út í haust. Væntanlega verður það forgangsmál verkalýðshreyfingarinnar að fara yfir efndirnar í stuðningi stjórnvalda við þá samninga þegar þeir voru gerðir fyrir u.þ.b. þremur árum. Ég ætla að spá því að það að tryggja leiguvernd og húsnæðisöryggi leigjenda á vinnumarkaði verði þar mjög ofarlega á blaði.