152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022--2036.

563. mál
[17:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil í þessu samhengi, þegar við ræðum byggðastefnu, aðeins nefna kynjaða hagstjórn við fjárlagagerð, hversu mikilvæg hún er þegar við setjum okkur stefnu ef við viljum að hún nái framgangi og markmiðum sínum. Ég vil að auki nefna réttlát græn umskipti sem líka skipta máli fyrir byggðastefnuna og lífvænlega og blómlega byggð um allt land. En aðeins um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Hvað er það nú? Á yfirborðinu virðast fjárlögin t.d. vera hlutlaus. Þar er hvorki minnst á konur né karla og ekki er gerð grein fyrir mismunandi áhrifum fjárlaga á kynin og stöðu þeirra, þ.e. þegar við horfum á talnabálkana og excel-skjölin. Við höfum sett það í lög að gera þurfi grein fyrir kynja- og jafnréttissjónarmiðum í fjárlögum og í fjármálaáætlun og það er gott en við þurfum að gera aðeins betur þegar að þessu kemur. Við vitum að fjárlögin hafa afar ólík áhrif á aðstæður kvenna og karla og markmiðið með kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð er að draga fram áhrif fjárlaganna á kynin og leita um leið leiða til að tryggja jafna og sanngjarna dreifingu fjármagns. Þegar verið er að tala um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð segir fólk kannski: Þetta er nú bara eitthvert kjaftæði, við þurfum bara almennilega pólitík og atvinnu og við þurfum að keyra þetta áfram. En málið er bara að kynjuð hagstjórn er mjög mikilvægur þáttur í byggðastefnunni. Ef við byggjum t.d. ekki upp góða velferðarþjónustu út um landið, ef við sjáum ekki til þess að þar sé almennileg heilsugæsla, góðir skólar og aðstæður fyrir börn til að þroskast og þrífast vel, þá fara konurnar. Þær flytja og þær taka börnin sín með. Karlarnir vilja ekki vera lengi einir í byggð þar sem hvorki eru konur né börn. Það er því mjög mikilvægt, þegar við setjum niður byggðastefnu, að við gætum að þessum atriðum og flettum fjárlögunum og fjármálaáætlun, eins og við förum að gera hér í þinginu með áætlun til næstu fimm ára, og skoðum tölurnar, stefnurnar fyrir málaflokkana og málasviðin, með þessum gleraugum. Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð er byggðamál. Það er byggðamál og ég vona að hæstv. innviðaráðherra sé að leggja við hlustir þó að ég sjái hann ekki hér í salnum.

Frú forseti. Annað mikilvægt mál eru grænu umskiptin sem blasir við að við þurfum að taka á. Til að hægt sé að draga með markvissum hætti úr losun gróðurhúsalofttegunda með grænni uppbyggingu þarf hið opinbera að taka frumkvæðið og vísa veginn. Þetta á við um orkuskiptin. Það þarf hærri og markvissari niðurgreiðslu, t.d. til rafmagnsbifreiða, aukafjárfestingu í almenningssamgöngum, fjárfestingu í hringrásarhagkerfi og í matvælaframleiðslu og efla græna stjórnsýslu og innleiða græna fjárfestingaráætlun. Það næst nefnilega engin samfélagssátt um hröð orkuskipti og aðrar breytingar á atvinnu- og lifnaðarháttum nema velferðarsjónarmið séu höfð að leiðarljósi og tryggt sé að kostnaður vegna umskiptanna falli ekki á herðar tekjulægri hópa eða íbúa í dreifðum byggðum umfram aðra. Þannig er augljóst að grænu umskiptin eru líka byggðamál og hafa þarf byggðasjónarmiðin með þegar hugað er að því hvernig við ætlum að fara í þessi stóru verkefni sem við þurfum að glíma við og leysa hratt og vel á næstu árum. Á endanum verða allir að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og tryggja verður að kostnaður á grænum umskiptum lendi ekki þyngst á þeim sem minnst hafa handa á milli.

Þegar við erum að fara að umbylta hlutunum, gera þá með öðrum hætti, út frá grænum sjónarmiðum felast í því tækifæri og við getum þá hugað að þeim breytingum. Við ættum að stíga skref í átt til þeirra breytinga með því að sjá til þess að þau skref verði réttlát og að byggðasjónarmiðin séu höfð að leiðarljósi. Það hefur oft verið talað um það hér, þegar verið er að tala um kolefnisgjald eða að finna þurfi leiðir til þess að þeir sem menga þurfi að borga, að það sé einmitt nauðsynlegt fyrir fólk víða um land. Það eru atvinnugreinar og launafólk sem treystir á kolefnisfrekt hagkerfi víða um landið og aðstöðu og þarf þá að taka á sig stóran efnahagslegan og félagslegan toll vegna nauðsynlegra aðgerða í þágu umskiptanna. Það sama má segja um tæknibyltinguna, grænu umskiptin og sjálfvirknivæðinguna. Tæknibyltingin á auðvitað að verða til þess að auka jöfnuð, að byggð verði blómleg um allt land og það sé möguleiki að skapa, með þessum breytingum, aðlaðandi búsetuskilyrði út um landið.

Það má ekki vera þannig, frú forseti, að ákveðnar byggðir verði skildar eftir. En af því að hæstv. ráðherra er kominn í salinn vil ég nefna að ég legg áherslu á tvennt: Það er mikilvægt að nefndin sem um ræðir fari vel yfir kynjaða hagstjórn við fjárlagagerð og fari vel yfir grænu umskiptin og sjálfvirknivæðinguna og sjái til þess að ekkert landsvæði sé skilið eftir þegar kemur að þessu tvennu. Þar er velferðarþjónustan undir líka og hana þarf að manna og fjármagna út um allt land.