152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

sóttvarnalög.

498. mál
[18:08]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir hans framsögu og þakka honum fyrir að leggja frumvarpið fram. Það skal játað að áður en Covid-fárið gekk hér yfir hafði ég ekki miklar áhyggjur af sóttvarnalögum, og var ekki mikið að velta þeim fyrir mér, en er að verða mikill áhugamaður um þau. Það eru nokkur atriði sem ég myndi vilja eiga örstutt orðastað um við ráðherra eins og andsvar leyfir. Í fyrsta lagi velti ég því fyrir mér hvort við getum náð saman um að nauðsynlegt sé, í meðförum hv. velferðarnefndar, að styrkja enn frekar aðkomu þingsins að ákvarðanatöku þegar kemur að beitingu sóttvarnalaga. Þegar gengið er fram með þeim hætti að talið er nauðsynlegt að skerða athafnafrelsi fólks á grundvelli sóttvarna þá verði þingið með einum eða öðrum hætti að koma að því. Ég nefni t.d. að í Bretlandi, ef ég fer rétt með, hafa menn komið því þannig fyrir að sérstök kórónuveirulög sem þá voru sett voru endurskoðuð með reglulegu millibili af þinginu. Það er spurning hvort þingið þurfi í raun að staðfesta innan ákveðins frests, þegar sóttvörnum er beitt, þær ákvarðanir sem teknar hafa verið af farsóttanefnd og ráðherra.

Spurning mín til ráðherra í þessu fyrra andsvari er því: Getum við náð saman um að finna út leið til að styrkja aðkomu þingsins að beitingu sóttvarna þegar þeim þarf að beita?