152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

sóttvarnalög.

498. mál
[18:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar spurningar. Hann kjarnar bæði í fyrra og seinna andsvari það sem ég trúi að verði mjög til umræðu í hv. velferðarnefnd. Þetta var býsna mikið rætt og kom fram í samráði, í umsögnum þar. Aðeins varðandi 8. gr. og farsóttanefnd. Þar er augljóslega verið að koma inn á að breiðari skírskotun sé að baki ákvarðanatöku en verið hefur. Það snýr að öðrum þáttum en bara þessum faraldsfræðilegu þáttum, sem verða auðvitað að byggja á þekkingu og hæfiskröfur eru um þegar við erum að ráða í þetta mikilvæga embætti. En þegar við erum að setja þessa nefnd saman er mikilvægt fyrir sóttvarnalækni að hafa þessa breiðu skírskotun um áhrifin á samfélagið og svo auðvitað skilgreiningu á stöðunni, sjúkdómnum og hvaða leið er hyggilegt að fara. Ég tek undir það.

Ég vísaði hér í lögmætisreglu og við reynum alltaf að hafa lagastoðina alveg skýra og það er það sem við erum að leita eftir að komi fram í slíku ferli og í þeim tillögum sem koma frá þessum aðilum. Að vissu leyti er þetta sambærileg leið við þá sem kveðið er á um í dönsku lögunum sem ég vísaði til. Það er markmiðið þarna að hafa þetta á breiðari grunni, að byggja líka á félagshagfræðilegri þekkingu. Það er komið fram, ef mig brestur ekki minni, í greinargerðinni þar sem fjallað er um hvert lagaákvæði fyrir sig. (Forseti hringir.) Seinni hluti spurningarinnar var af svipuðum toga en ég get ekki annað en hætt akkúrat núna.