152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

sóttvarnalög.

498. mál
[18:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta. Auðvitað kom hann bara hér upp til þess að setja fram þessa yfirlýsingu og í máli hans var ekki nein sérstök spurning til mín. En það er allt í lagi, finnst mér, að við rifjum upp hvaða álitamál eru uppi. Þegar grípa þarf til sóttvarnaaðgerða til að verja heilsu manna geta þær auðvitað haft neikvæðar aukaverkanir, eins og við fylgdumst með í heimsfaraldrinum sem nú er að ganga yfir. Ein slæm aukaverkun er heimilisofbeldi sem bitnaði síðan á börnunum. Þarna var einhver togstreita á milli. Við þurfum að kæfa þessa veiru niður og fólk má ekki vera á neinu flandri og þarf að vera heima hjá sér, það verður þá bara að hafa það þó að börnin verði fyrir skaða — eða hvað? Getum við gert þetta öðruvísi? Svo var tekin ákvörðun um að hafa skóla opna, a.m.k. leikskólana, og þá kom líka upp samviskubit hjá blessuðum börnunum sem smituðu afa og ömmu sem lentu svo á spítala. Það eru svo margar hliðar á málum sem varða sóttvarnir, afleiðingar þeirra, og hvernig best er að haga sér í þessari gífurlegu erfiðu stöðu sem samfélagið er sett í þegar heimsfaraldur geisar. Það eru svo mörg álitamál. Þau eru heilsufarslegs eðlis en þau eru líka siðferðislegs eðlis og þar kemur uppeldisfræðin inn og heimspekin og svo margt annað. Við eigum spennandi tíma fram undan í hv. velferðarnefnd að fara yfir þessi mál.