152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

sóttvarnalög.

498. mál
[18:37]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegur forseti. Tilefni þessarar lagasetningar er vissulega ærið og þarf ekki að rekja í löngu máli. Það er langvarandi heimsfaraldur sem reyndi mjög á alla lagaumgjörð og alla stjórnsýslu og allt samfélagið og pólitíkina. Þessu höfum við náð að klóra okkur upp úr með góðum árangri. En eftir stendur spurningin um það hvaða lærdóm megi draga af þessu og hvernig nota megi þann lærdóm til að styrkja stjórnsýsluna og búa sig undir þann möguleika, sem við vonum auðvitað að komi ekki til, að við þurfum að standa í sambærilegum aðgerðum til lengri tíma. Ég held að mikið hafi reynt á það að löggjöfin og stjórnsýslan og allt skipulag hafi ekki gert ráð fyrir þessum möguleika og fólk hafi því verið að móta stefnuna mjög mikið jafnóðum, með ágætum árangri þegar upp er staðið.

Að þessu sögðu verð ég að segja að ég er ekki alveg viss um að þetta frumvarp eitt og sér, eða jafnvel endurskoðun sóttvarnalaga, sama með hvað hætti það yrði gert, taki á öllum núningi sem upp kom og álitamálum sem standa eftir. Líkt og hv. þm. Óli Björn Kárason kom inn á í andsvörum sínum þá lúta álitamálin m.a. að samræmingu mismunandi sjónarmiða og hvernig hugað er að stóru myndinni. Sóttvarnayfirvöld, alveg sama hvar þau eru hýst og hvaða valdheimildir þau hafa, horfa alltaf á svolítið þröngan ramma og það er það sem þeim ber skylda til að gera, þ.e. á sóttvarnir, fyrirkomulag þeirra og hvernig hægt er að grípa til aðgerða sem draga úr bráðri hættu. Það er svo kannski annarra að taka tillit til mismunandi hagsmuna og stilla upp aðgerðum þegar íþyngjandi ákvarðanir eru teknar. Hvernig eru mótvægisaðgerðir? Hvernig drögum við úr skaðanum sem verður af þessum þvingunum? Þarna er kannski hægt að hugsa sér, og ég sakna þess kannski pínu í frumvarpinu, að sóttvarnayfirvöldum sé falið það hlutverk að stilla upp sviðsmyndum, sem sóttvarnalæknir gerði vissulega í sumum tilfellum, að gefa upp mismunandi möguleika og greina myndina aðeins. Það gætu stjórnvöld svo tekið inn í myndina og kannski vegið á móti öðrum þáttum og gert sér grein fyrir þeim möguleikum sem væru í boði og þeim áhrifum sem af hlytust. Svo er kannski hægt að taka ákvörðun út frá því hvernig mismunandi hagsmunir eru vegnir og metnir. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er erfiðara en það hljómar. Það er erfitt að spá fyrir um afleiðingar aðgerða, sérstaklega í síkviku umhverfi þar sem kannski er verið að móta þekkingu jafnóðum og stöðugt verið að bregðast við nýjum aðstæðum. En ég held engu að síður að það sé algerlega raunhæft að huga að þessu. Þetta er kannski ekkert endilega eitthvað sem hægt er að binda í lög. Þetta varðar samstarfið innan ríkisstjórnar, hvernig verklag er þar, hvaða innviðir eru til staðar til gagnaöflunar og hvernig ríkisstjórnin nýtir það.

Að þessu sögðu ætla ég samt að fara aðeins í efnisatriði frumvarpsins og stoppa sérstaklega við það sem hv. þm. Oddný Harðardóttir kom inn á, sem eru þau nýmæli að ráðherra skipi sóttvarnalækni, álitaefni þar. Út frá þeim gögnum sem fylgja með frumvarpinu, bæði lagatextum, greinargerð og öðrum undirbúningsgögnum, sé ég ekki alveg að tilgangurinn sé nægilega vel skýrður. Hvaða vandamál er verið að leysa með þessu? Að hvaða leyti er hlutunum betur fyrir komið svona? Hvaða mál komu t.d. upp í yfirstandandi faraldri sem er fyrirséð að verði einhvern veginn betur leyst úr eða muni ganga betur í framtíðinni? Að því sögðu held ég að þetta sé í sjálfu sér ekki alslæm tillaga — og þá vitna ég aftur í hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og það sem hún sagði um umsögn Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur — ef þetta yrði styrkt með því að stofna sérstaka stofnun í kringum sóttvarnir, ef sá hluti yrði tekinn frá embætti landlæknis og ekki bara sóttvarnalæknirinn sjálfur heldur væri eitthvað haft undir honum.

Fyrirmyndirnar sem eru nefndar og rökin sem eru sett fram í greinargerð með frumvarpinu, fyrir því að sóttvarnalæknir eigi að heyra undir ráðherra, eru þau að það sé sambærilegt við forstöðumenn annarra stofnana. Þá fer maður að hugsa: Af hverju þá ekki að gera stofnun úr þessu þannig að þetta yrði þá raunverulega sambærilegt? Sóttvarnir fengju þá í leiðinni þann sess sem við gerum ráð fyrir að mikilvægt sé að þær hafi í framtíðinni út frá fenginni reynslu. Þarna væri þá hægt að styrkja ákvarðanatöku og það mæðir þá ekki jafnmikið á sóttvarnalækni sjálfum og hefur gerst, hann hefur þá starfslið undir sér. Ef fólk hefur áhyggjur af einhverjum útblæstri — ég hef ekki kynnt mér það sérstaklega en ég geri ráð fyrir að fleira starfslið undir embætti landlæknis gæti þá farið með sóttvarnalækni. Stjórnsýslulega myndi þetta kannski skýra betur stöðu sóttvarnayfirvalda. Ég held að það færi betur á því, ef kippa á sóttvarnalækni út úr embætti landlæknis, að hafa þá sérstaka stofnun undir honum.

Það er annað atriði í þessu sem mig langar að nefna. Það er mismunandi hvort sóttvarnalæknir eða farsóttanefnd leggur fram tillögu til ráðherra eftir því hvert eðli sjúkdómsins er. Ég fæ ekki séð að það sé skýrt mjög vel í frumvarpinu, þ.e. af hverju þessu er þannig háttað. Í 27. gr., sem varðar sóttvarnaráðstafanir vegna alvarlegs sjúkdóms, er það sóttvarnalæknir sem gerir tillögu til ráðherra. Í 28. gr., sem lýtur að sóttvarnaráðstöfunum vegna samfélagslega hættulegra sjúkdóma, sem er þá alvarlegra stig, er það farsóttanefnd sem gerir tillögu til ráðherra. En í 29. gr., sem varðar aðgerðir á landamærum, er það aftur sóttvarnalæknir. Ég er ekki alveg viss um að þessi skipting sé til þess fallin að skýra stjórnsýsluna. Ég held að betur færi á því að þetta myndi allt saman heyra undir eitthvert fjölskipað stjórnvald, hvort sem það er þessi farsóttanefnd eða sérstök ný stofnun eða hvort tveggja.

Það er ágætishugsun í þessu en ég vil bara taka undir með öðrum þingmönnum og líka hæstv. ráðherra sjálfum sem hefur lagt áherslu á að það séu hlutir sem þarf að liggja vel yfir þegar frumvarpið fer til meðferðar hjá hv. velferðarnefnd.