152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

sóttvarnalög.

498. mál
[18:47]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka ráðherranum fyrir framsöguna. Það hafa verið ágætar umræður um þetta mál. Þetta er eitt af þeim málum sem þjóðin hefur öll skoðun á. Það sýndi sig, í þeirri glímu sem við höfum átt í í tengslum við Covid-faraldurinn, að þeir voru margir sérfræðingarnir sem voru að störfum víðs vegar í samfélaginu, og ekki bara hér á Íslandi heldur út um allan heim. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt þegar um er að ræða inngrip eins og þurfti að grípa til mjög víða og er enn verið að gera. En allar tölur sýna að við stóðum okkur hreint ágætlega í þessu, okkur tókst vel upp. Heilt yfir held ég að við getum verið nokkuð ánægð. En ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að þetta er góður tími til að koma fram með slíkt frumvarp. Þó að við séum kannski enn að vinna úr þeim upplýsingum og þeirri reynslu sem við öðluðumst í kjölfar þessa alls er þetta ágætur tími til að fara aðeins í gegnum þetta og ég geri ráð fyrir að velferðarnefnd leggist vel yfir málið.

Ég er ánægð með 5. gr. þar sem talað er um að ráðherra skipi sóttvarnalækni. Það er að fengnu mati nefndar og kannski ekki alfarið undir ráðherranum komið sem slíkt. Ég tel að það sé hið besta mál, þetta er aðili sem heyrir undir ráðherra. Ég held að það geti bara verið hreint ágætt.

Varðandi það sem hér hefur talsvert verið talað um og ég held einmitt að þurfi að fara dálítið vel ofan í — það eru ákveðnir þættir sem rætt hefur verið um varðandi þessa samstarfsnefnd um sóttvarnir, farsóttanefndina og hennar hlutverk o.fl. Ég held að full ástæða sé til þess að fara dálítið ofan í það. Meðal annars er lagt til að stigskipta sjúkdómum, og er það að danskri fyrirmynd, eftir alvarleika og áhrifum þeirra á samfélagið hverju sinni. Við í þingflokki VG erum ekki alveg sannfærð um að þörf sé á slíkri skilgreiningu og kannski sérstaklega í ljósi þess hversu vel okkur tókst til í baráttunni við Covid-19. En þetta er auðvitað eitthvað sem nefndin tekur til sín.

Við veltum líka upp, eins og ég heyri að fleiri gera, og gerðum athugasemd við þessa skipun farsóttanefndar. Við myndum vilja sjá hana skipaða á vísindalegum forsendum en ekki endilega bara af fulltrúum umræddra stofnana eins og hér er lagt til. Það er ekkert endilega víst að þær stofnanir séu best til þess fallnar í sjálfu sér að leggja vísindalegt mat á þá hættu sem fyrir hendi er hverju sinni þannig að það er kannski skynsamlegra að fram fari víðtækara hagsmunamat. Það þarf líka að vera á vettvangi ráðherranefndar, eða í umboði hennar, að meta heildaráhrifin, þ.e. ekki bara áhrifin af sjúkdóminum eða farsóttinni sem við er að eiga hverju sinni, eðli máls samkvæmt þarf að taka tillit til fleiri þátta. Við Vinstri græn viljum kannski að þetta fyrirkomulag, bæði um ákvarðanatökuna og samráðið, sé lipurt og gagnsætt. Við þurfum að byggja upp traust á þessum ákvörðunum eins og við reyndum að gera í tengslum við Covid-19. Eins og við upplifðum öll höfðu ansi margir landsmenn miklar skoðanir á þessu. Þetta er eins og með snjómokstur, það vita allir hvernig best er að moka. Það voru mjög margir sem vissu, og sérstaklega þegar líða tók á, hvernig best væri að haga þessu öllu saman.

Ég vildi bara rétt aðeins koma inn á þetta. Ég er líka sjálf ósammála þeirri nálgun sem sett er fram í frumvarpinu varðandi þessa skipun, þ.e. að heilbrigðisstofnun utan höfuðborgarsvæðisins og varasjúkrahús eða eitthvað slíkt sé ekki þar inni. Ég held að það sé eitt af því sem horfa þurfi til. Það var eitt af því sem við heyrðum þegar við ræddum við fulltrúa stofnana út um hinar dreifðu byggðir. Það er kannski að einhverju leyti eðlilegt þar sem ákvarðanir eru teknar undir mikilli pressu, og stundum þarf að taka þær hratt, á svæðum þar sem massinn er, þar sem aðalframkvæmdin er, að þá eigi bara að gera hlutina eins alls staðar annars staðar. Það er samt ekki alltaf raunhæft sökum þess að aðstæður eru ólíkar, byggðin er dreifðari o.s.frv. Það er að mörgu að hyggja og mér finnst að fleiri sjónarmið þurfi að koma fram. Það kemur sannarlega fram að hægt sé að kalla til tvo í viðbót og það geti m.a. verið fulltrúar heilbrigðisstofnana af landsbyggðunum. En ég treysti því að velferðarnefnd fari yfir þetta og heyri sjónarmið heilbrigðisstofnana vítt og breitt um landið varðandi þennan þátt.

Þetta er tímabært frumvarp og allflest í því er mjög gott. Það þarfnast þess, eðli máls samkvæmt, eins stórt og það er og eins mikilvæg og þessi lög eru, að vel sé farið yfir það og gestir fengnir til að skoða það. Ég treysti því að þau atriði sem ég hef nefnt, og fleiri hafa einnig gert, verði skoðuð vel og vandlega.