152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

sóttvarnalög.

498. mál
[18:54]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Það er fagnaðarefni að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli koma með þetta frumvarp inn á þingið. Ég held að það sé óþarfi að rifja upp umræðuna þegar allir voru óvænt í þeirri stöðu að hin lagalega umgjörð hefði getað verið þéttari gagnvart þeim áskorunum sem við stóðum frammi fyrir, þ.e. að vinna bug á heimsfaraldri, og hún hefði getað verið betri og þá kannski ekki síst þegar um er að ræða takmörkun á frelsi. Hvort sem það er athafnafrelsi eða annað frelsi þá er það algerlega skýlaus réttur allra í frjálsu lýðræðissamfélagi að réttur til allra slíkra inngripa sé skýr. Ég fagna því þessu frumvarpi. Ég vil fá að segja strax að mér finnst það vissulega vera til bóta, það er í rétta átt.

Það eru nokkur atriði sem ég hnaut um sem mig langar að gera að umtalsefni. Fyrst vil ég nefna aðkomu Alþingis. Það er áhugavert, og ég held að það sé okkur til umhugsunar, hversu auðvelt það var, of auðvelt að mínu mati, frú forseti, að stilla vísindum og stjórnmálum, eða vísindafólki og stjórnmálafólki, upp sem andstæðum. Það var rosastutt í að því fylgdi líka eitthvað vont eða gott. Þarna vil ég ekki að neinn misskilji mig, að ég sé að gera lítið úr vísindafólki, alls ekki. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að vísindafólk ber ekki ábyrgð gagnvart fólkinu sínu eins og stjórnmálamenn gera. Mig langar að nefna þetta, frú forseti, og ég veit að það eru ekki allir sammála mér um það, en fyrir mér er pólitísk ábyrgð ein mikilvægasta grundvallarregla og einn mikilvægasti öryggisventill frjáls lýðræðissamfélags. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það eru stjórnmálamenn út um heim sem kusu því miður að gera lítið úr vísindamönnum sínum eða eitthvað slíkt, þannig að í umræðunni hér heima var kannski of mikill freistnivandi til að líta svo einfalt á málin. Ég held að það hafi verið synd. Ég held að við ættum, eins og í stjórnmálunum almennt, að láta stjórnmálamennina og ráðamenn á hverjum tíma bera ábyrgðina sem þeim ber, en auðvitað á það að vera byggt á allra bestu upplýsingum okkar allra besta vísindafólks.

Að því sögðu fagna ég því að Alþingi hafi fengið aðkomu varðandi ákvarðanir um sóttvarnir og þá sérstaklega þegar verið er að stíga skref er varða frelsi fólks. Ég fagna aðkomunni en ég sakna þess örlítið að ekki hafi verið hægt að ganga aðeins lengra í þá átt að viljinn væri skýr og virðingin fyrir því hvar ábyrgðin gagnvart fólkinu í landinu liggur þegar allt kemur til alls, hún er og á að vera hjá lýðræðislega kjörnum fulltrúum þessa sama fólks. Löndin í kringum okkur hafa mörg hver stigið frekari skref í þá átt að láta ábyrgðina vera þar. Ég hefði viljað sjá þannig nálgun. Ég ætla ekki að gera lítið úr því og þekki þá umræðu ágætlega þegar bent er á að vegna þrígreiningar ríkisvaldsins geti þingið ekki bundið hendur ráðherra. Mér þætti áhugavert að taka þá umræðu meira á dýptina. Ég get ekki verið dómari í þeirri umræðu, ég er ekki svo klár í stjórnskipunarrétti, en mér þætti sú umræða áhugaverð. Ég myndi halda að sú umræða ætti vel heima í velferðarnefnd ef svo bæri undir. Mér þætti áhugavert að þar yrði skoðað hvort hægt væri að finna aðeins meira jafnvægi þarna á milli en við erum að sjálfsögðu að vinna út frá vísindum, og það eru til þess bærir aðilar sem taka þær ákvarðanir. Enginn hefur áhuga á að flækja það ferli á nokkurn hátt eða vera einhvers konar hindrun þegar taka þarf ákvarðanir skjótt og vel — eins og við þekkjum þarf oft að bregðast skjótt við í svona málum — en mér þætti áhugavert að kanna hvort hv. velferðarnefnd myndi vilja taka snúning á því hvort hægt sé að undirbyggja aðkomu lýðræðislega kjörins þings örlítið meira, hafa örlítið meiri öryggisventil gagnvart fólkinu í landinu. Mér þætti það til bóta. Ef niðurstaðan eftir þann snúning er hin sama skal ég hætta að tala um þetta, en ég held að þessi umræða yrði málinu öllu til bóta. Ég ætla að láta staðar numið varðandi þennan vinkil málsins.

Mig langar örstutt, á þeim stutta tíma sem ég á eftir, að fara yfir önnur atriði. Ég ætla ekki að nefna þau atriði sem þegar hafa komið fram í ágætri umræðu hér til þess að vera ekki að lengja tímann að óþörfu. Mig langar aðeins að gera að umtalsefni skilgreininguna á samfélagslega hættulegum sjúkdómi, því að til þess að gripið verði til mest íþyngjandi sóttvarnaráðstafana sem lögin heimila verður sjúkdómur að teljast samfélagslega hættulegur og er skilgreindur í 4. gr. En mér þætti áhugavert ef hv. velferðarnefnd myndi vilja skoða það aðeins að það er í raun takmarkað læknisfræðilegt mat sem virðist liggja að baki ákvörðun um hvort sjúkdómur teljist samfélagslega hættulegur, eins og t.d. hversu há dánartíðni fylgir honum eða hver smitstuðullinn er. Það má líka velta því upp hvenær sjúkdómur hefur þær afleiðingar að mikilvæg störf, innviðir eða starfsemi heilbrigðiskerfisins raskist. Það er í raun munur á því hvort framangreind starfsemi raskast vegna sjúkdómsins sjálfs, að sjúkdómurinn sjálfur hafi það miklar afleiðingar og fólk verði það mikið veikt að það geti ekki sinnt störfum sínum, eða hvort röskunin sé komin til út af sóttvarnaráðstöfunum sem stjórnvöld sjálf setja o.s.frv. Ég teldi rétt að hv. velferðarnefnd skoðaði þetta. Ég ætla ekki að fjalla um farsóttanefndina sem hefur verið fjallað hér um með ágætum, en tek undir mörg sjónarmið þar, kannski sérstaklega þetta með að vísa líka til efnahags- og félagslegra hagsmuna því að það er allt partur af okkar ágæta samfélagi.

Eitt tæknilegt atriði sem mig langar aðeins að nefna varðar 24. gr., málsmeðferð hjá dómstólunum. Þar kemur fram að dómari skuli sjálfur sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en hann kveður upp úrskurð og skuli sjálfur afla sönnunargagna sem hann telur þörf á. Í frumvarpinu kemur jafnframt fram að farið sé eftir lögum um meðferð einkamála og eftir atvikum sakamálalögum í málum sem varða sóttvarnalög nema kveðið sé á um annað í lögum, og er 24. gr. að langmestu leyti samhljóða 15. gr. núverandi laga. Fyrirgefið, þetta var mjög tæknilega flókið. En það má velta því upp hvort óeðlilegt sé að það sé hlutverk dómara að rannsaka málið og kveða svo sjálfur upp úrskurð í því, í raun er um að ræða þetta rannsóknarréttarfar sem hefur tíðkast hér síðan það var aflagt fyrir svolitlu, þ.e. árið 1995.

Mér þætti rétt að hv. velferðarnefnd myndi skoða hvort réttara væri að málsmeðferð yrði sambærileg og í einkamála- og sakamálalögum, að sóknaraðili eða ákærandi afli sönnunargagna en dómari geti óskað eftir því að hann afli tiltekinna gagna um atvik máls ef þörf er á til að upplýsa málið eins og gengur. En hins vegar væri þessi aðgreining eins og eðlilegt er, eins og er í einkamála og sakamálalögum og ættu því að vera alveg skýr fordæmi fyrir.

Annað atriði tæknilegs eðlis; tekið er fram í 24. gr. að þeim sem geta vegna tengsla sinna við varnaraðila veitt nauðsynlegar upplýsingar sé skylt að veita dómara þær. Mögulega er hægt að skilja ákvæðið sem svo að t.d. mökum og fjölskyldumeðlimum varnaraðila sé skylt að bera vitni gegn honum. Bæði í einkamála- og sakamálalögum er vitnum sem eru tengd sakborningi, aðila máls, með slíkum hætti ekki skylt að bera vitni. Það væri að mínu viti óeðlilegt að skylda nákomna aðila til að veita aðstoð við rannsókn á máli sem snýr að frelsissviptingu, sérstaklega, eins og ég nefndi áðan, vegna þess að við erum með annan hátt á í einkamála- og sakamálalögum og því ætti ákvæðið að vera orðað á þann hátt og ætti að vera í fullu samræmi við hvernig við hugsum almennt um réttarfar okkar hér.

Í blálokin: Í 39. gr. er mælt fyrir um greiðsluþátttöku sjúklinga samkvæmt lögunum þar sem fram kemur að hún fari samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, þ.e. að kostnaður vegna framkvæmdar laganna greiðist að öllu jöfnu eins og annar sjúkra- og lækniskostnaður. Í ljósi þess að mikið af þeirri heilbrigðisþjónustu sem mælt er fyrir um í lögunum er í senn íþyngjandi og þvinguð fram af stjórnvöldum langar mig að velta upp hvort ekki sé eðlilegt að kostnaður vegna framkvæmda samkvæmt lögunum verði að meginreglu til greiddur af ríkissjóði.

Frú forseti. Ég hef tæpt á þeim helstu atriðum sem ég hnaut um við lestur frumvarpsins. Mig langar að fá að taka aftur fram það sem mér finnst til bóta. Þar eru mörg skref stigin í rétta átt og þó að allir voni að viðlíka staða blasi ekki við okkur og raunin varð í mars 2020 verðum við aðeins betur nestuð. Ég tek fyllilega undir með þeim sem hafa nefnt að í logninu núna, þegar rykið hefur aðeins sest og við höfum aðeins meira andrými, erum farin út úr óttanum, jafnvel reiðinni, er ákveðið skjól til þess að ræða mikilvæga hluti, því að mér finnst þetta afskaplega mikilvægt frumvarp. Þó að við höfum vissulega staðið okkur vel og ég sé mjög stolt af stjórnvöldum og öllum sem komu að því og hvernig haldið var utan um íslenska þjóð á skrýtnum tímum, þá verður að mega gagnrýna nokkur atriði og það verður að mega að spyrja spurninga. Ég veit að núna hljóma ég í eyrum margra eins og biluð plata en ég veit ekki alveg hvernig ég á að orða þetta öðruvísi. Fyrir mér eru ofboðslega veigamiklir hlutir undir. Ég hef almennt í lífinu reynt að temja mér það, ég tala nú ekki um í þeirri stöðu sem ég er hér í dag, í því starfi sem ég sinni, að hugsa allar reglur út frá því ef vondir menn væru við völd. Ég ætla að biðja alla hlutaðeigandi að taka þetta alls ekki til sín því að þessu er engan veginn beint að þeim, þvert á móti. Ég hef hins vegar reynt að skoða allar reglur, öll völd sem reglur veita einhverjum aðilum eða stofnunum eða hvað það er, út frá því ef það væri ekki gott fólk sem héldi á þeim reglum. Og út frá því prinsippi legg ég til að hv. velferðarnefnd setji á sig þau gleraugu og athugi hvort við getum stigið nokkur skref nær því að lýðræðislega kjörið þing beri þá ábyrgð sem það getur borið í jafn stórum ráðstöfunum og hér er verið að búa til ramma um.

Ég vil ítreka þakkir til ráðherra fyrir frumvarpið.