152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[19:35]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir framsöguna um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Mig langar að nota þetta tækifæri og inna hann eftir vinnu við aðgerðaáætlun. Ég sé á netinu að skipaður hefur verið samráðshópur sem á að vinna að aðgerðaáætlun á grunni stefnunnar, verði hún samþykkt, til ársins 2030. Ég geri ekki athugasemdir við það en ég velti fyrir mér — vegna þess að við höfum verið og erum með til umfjöllunar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem hæstv. ráðherra minntist á, um stöðu geðheilbrigðisþjónustu hér á landi, og sú skýrsla lýsir mjög vel því óviðunandi ástandi sem ég tel vera, og tek því undir með ríkisendurskoðanda, í geðheilbrigðisþjónustu. Því miður eru það ekki ný tíðindi, því miður er það ekki eitthvað sem gerðist í gær eða á síðasta ári eða í Covid. Það er miklu eldri saga sem byggir á því að við höfum vanfjármagnað geðheilbrigðisþjónustuna. Hún fær ekki það hlutfall af framlögum til heilbrigðisþjónustu sem hún á að fá, í samræmi við þyngd sjúklinga, fjölda sjúklinga o.s.frv.

Ég spyr því hvort þessari stefnu sé fylgt eftir, ekki aðeins með aðgerðaáætlun heldur ítarlegri kostnaðaráætlun, og hvernig ríkisstjórnin hyggst fjármagna þær aðgerðir sem eru algjörlega nauðsynlegar til að bæta geðheilsu með bættri geðheilbrigðisþjónustu og annarri þeirri samþættingu og þeirri nálgun sem nefnd er í stefnunni. Í fljótu bragði sýnist mér hún vera fagleg og rétt.