152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[20:01]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir framlagningu þessarar tillögu og fyrir góða framsögu um hana. Mér líst að mörgu leyti vel á áherslupunktana í þessari stefnu og mér finnst líka þakkarvert hve hæstv. ráðherra er hreinskilinn varðandi stöðu mála. Það er í raun verið að halda áfram vegferð sem hófst á síðasta kjörtímabili, sem er sú að ná utan um þennan málaflokk sem sérstakan málaflokk innan heilbrigðiskerfisins og setja um hann sérstaka stefnu. Þetta er í annað sinn sem verið er að setja hér sérstaka heilbrigðisstefnu. Efnislega finnst mér áherslurnar sem birtast fremst, sem eru grunnurinn að þessari stefnu, vera góðar að því leyti að það er viðurkennt að geðheilbrigði og geðheilbrigðisþjónusta er meira en bara að bregðast við og veita þjónustu þegar vandi er kominn upp og fólk er orðið fullorðið. Þetta snýst ekki síður og jafnvel aðallega um aðbúnað í æsku, uppeldisaðstæður, og kannski stærri samfélagslega þætti. Það er gott að þetta er tekið saman þó að ég sakni þess kannski að aðgerðunum fylgi ekki aðeins víðtækari nálgun. Það er mjög jákvætt að auka geðfræðslu í skólum en í samræmi við það hvernig áherslupunktunum er lýst væri ekki vitlaust að huga líka að stuðningi við foreldra, í öllu sem viðkemur stuðningi við börn, og svo náttúrlega jafnræði og jöfnuði. Erfiðar efnahagslegar aðstæður geta haft mjög alvarleg áhrif á geðheilsu.

Eins og hæstv. ráðherra kom aðeins inn á þá hefur barnamálaráðherra, sem ber þann titil, líkt og hann gerði til helmings á síðasta kjörtímabili, verið að móta áherslur sem lúta akkúrat að þessu, að huga að forvörnum gagnvart börnum og aðbúnaði þeirra og viðurkenna að slíkt hefur mjög mikil áhrif á líf fólks, að það sé í raun hagstæðasta aðferðin til að huga að geðrækt að gera það snemma í stað þess að bregðast við síðar. Þetta gæti mögulega verið ein ástæða þess að kostnaður hefur aukist, t.d. þegar kemur að geðlyfjum, og við sjáum líka fjölgun í hópi þeirra sem eru á örorku vegna geðrænna sjúkdóma. Það má sjá fyrir sér að þarna sé hægt að draga verulega úr því að fólk lendi í því að þurfa á þungri þjónustu að halda með því að koma inn fyrr.

Svo er komið inn á mönnun. Hv. þm. Eva Sjöfn Helgadóttir kom aðeins inn á það og spurði út í mögulegar ástæður þess. Ég held að það hafi komið mikið fram í samráði, líkt og kemur fram í greinargerð, að einn þáttur hlýtur að vera fjármögnun kerfisins. Þjónustustigið er eðlilega í samræmi við fjármagnið sem veitt er, það þarf að fara vel yfir þetta og átta sig á að þessum aðgerðum þarf að fylgja fjármagn. Annar þáttur hvað varðar mönnun getur mögulega snúið að kerfinu sjálfu og tækifærum sem boðið er upp á þar. Þó að það haldist í hendur við fjármögnun þá fer það líka saman við stefnumótun. Hæstv. heilbrigðisráðherra kom aðeins inn á það að geðheilsuteymin — ég þekki til þeirra af því að ég starfaði við eitt þeirra í rúm tvö ár þannig að ég get borið þeim gott vitni. Það er einmitt eitt dæmi um mjög jákvæða hluti en þar er verið að innleiða þverfaglega nálgun og færa þjónustuna í nærsamfélagið. Hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi að fagfólk hefði verið að leita þaðan af Landspítalanum og Landspítalinn hefur kvartað yfir því að vera að missa fólk. Mér finnst það einkennast af skortshugusnarhætti, að þetta sé það takmörkuð auðlind að það sé missir af því að auka þjónustuna. Við verðum náttúrlega að átta okkur á því að fólk er samt sem áður að njóta þjónustu þarna, það er bara á öðrum stað. Ég ætla að leyfa mér að vera svo bjartsýnn að trúa því að það að auka tækifæri fyrir fólk til að starfa, hvort sem er inni á stofnun eða í teymi eða einhvers staðar annars staðar, skapi hvata fyrir fólk til að mennta sig í þeim fræðum sem veita fólki starfsréttindi á þessu sviði. Ég vil tala svolítið gegn þessum skortshugsunarhætti, að með því að auka framboð sé verið að ganga á takmarkaða auðlind frekar en að framboðið muni leiða til þess að auðlindin stækkar svolítið.

Ekki verður komist hjá því að koma aðeins inn á mál sem hefur verið margnefnt hér í þingsal og hefur verið afgreitt héðan, sem er niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu. Þarna er aðeins komið inn á hana og í raun er athugasemdum sem koma fram í samráðsgátt svarað. Þar er vísað til þess að það sé ábyrgð Sjúkratrygginga að semja um útfærsluna. Þarna finnst mér aðeins horft fram hjá því að það er erfiðara að semja ef fjármagn er ekki til staðar. Ég er á því að fjármagninu þurfi að úthluta fyrir fram eða alla vega samhliða, að það sé greint nákvæmlega hvert umfang þessa þáttar þjónustunnar á að vera og fjármagni síðan úthlutað í samræmi við það.

Að öðru leyti óska ég nefndinni velfarnaðar í að fara yfir málið og að sjálfsögðu þeim sem koma til með að innleiða stefnuna. Ég hvet enn og aftur til að hugað verði vel að fjármögnun. Ég vonast til þess að þær greiningar sem liggja fyrir og verður farið í muni varpa góðu ljósi á nákvæmlega hver þjónustuþörfin er, hvort fjárveitingar eru til staðar og hvar fjármagnið nýtist best.