152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[20:23]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Það eru nokkrir aðrir punktar sem ég vil koma á framfæri sem ég sé ekki í þessari tillögu til þingsályktunar.

„Koma á fót mælaborði geðheilsu.“ Það er ein af þeim aðgerðum sem nefnd er í Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Ég sé þetta ekki hér. Hér er þó talað um gæðaráð, sem er bara gott og blessað en það er þó þannig að svolítið hefur verið grynnkað á metnaðinum sem var í þessari framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

Í lokaorðum skýrslunnar er talað um mikilvægi þess að koma þessari framtíðarsýn til framkvæmda og er nefnt að það þurfi samstillt átak allra hagsmunaaðila. Svo segir að hver og ein grunnstoðanna sjö muni þurfa sérstakar aðgerðaáætlanir með markmiðum og mælikvörðum. Þetta voru því sjö grunnstoðir með, að mig minnir, 42 aðgerðum.

Þó ber að nefna að þegar þessi framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 var unnin var ekki vísað í neinar rannsóknir. Það er undarlegt að þar sem talað er um gagnreyndar og góðar aðferðir sé ekki vísað í grunnheimildir fyrir því að vilja gera hlutina á einn eða annan hátt. Taka mætti mun meira tillit til nýlegra rannsókna og vísa í þær á þann hátt að lesandinn gæti mögulega farið í frumheimild og lesið um rannsóknir sem tengdust því sem lagt er til að gera. Auðvitað er sumt af því mjög augljóst, eins og t.d. húsnæði fyrir geðdeildir, það er augljóst. Annað er ekki svo augljóst og er mikilvægt að vísa í rannsóknir sem sýna fram á að þetta sé besta leiðin til þess að gera hluti sem við ætlum okkur að gera.

Einnig langar mig að nefna í þessu samhengi að það sem vantar í framtíðarsýnina í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 er að ekki er tekið mikið tillit til mælanlegra eða hlutbundinna markmiða, það er ekki tekið tillit til fjárlaga, hversu mikið fjármagn þarf til þess að uppfylla þessa framtíðarsýn. Í þessa tillögu til þingsályktunar vantar þó marga aðgerðapunkta sem talað var um í framtíðarsýninni og ég sakna þess. Ég vona að þetta sé einungis fyrsta skrefið og í næstu skrefum verði sett fram metnaðarfull markmið, eins og niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu og húsakost þar sem fólki gæti liðið betur, þar sem vísað er í rannsóknir til að útskýra að um sé að ræða bestu leiðina til að gera hlutina. Einnig ber, finnst mér, hæstv. heilbrigðisráðherra að ræða um fjármagn. Það er það sem vantar, það er það sem skortir, það er það sem við þurfum, það er það sem þarf til þess að sinna þessum málaflokki eins og hann á skilið.