152. löggjafarþing — 76. fundur,  17. maí 2022.

stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

575. mál
[20:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil bara fá að koma hér í lokin og þakka góða umræðu og fjölmargar góðar ábendingar sem munu nýtast hv. velferðarnefnd og alveg örugglega þeim samráðshópi sem hefur hafið vinnu við undirbúning aðgerðaáætlunar sem mun fylgja þessari stefnumörkun. Þegar hv. velferðarnefnd er búin að taka utan um þessar ábendingar úr 1. umr. og eftir umfjöllun og umsagnir verða til mjög góð gögn fyrir þann hóp sem er að vinna aðgerðaáætlunina. Ég er því mjög þakklátur fyrir þær fjölmörgu góðu ábendingar sem hafa komið fram hér.

Það er nefnilega eitt — eins og kom fram í ræðum hv. þingmanna, og sú sem var hér síðast í ræðustól, hv. þm. Eva Sjöfn Helgadóttir, kom líka inn á það — að vera með sýn og stefnu og svo er annað hvernig við fylgjum því eftir og framkvæmum það. Eitt af því sem við getum tekið til okkar úr skýrslu ríkisendurskoðanda er að þegar við fylgjum þessu eftir, erum búin að ábyrgðarvæða hvaða aðgerð á heima hvar og á vettvangi hvers, getum við unnið úr því og lagt mat á það. Þá kemur að mælikvörðunum, sem verður mjög mikilvægt, og svo kostnaðarmati á hverja aðgerð fyrir sig. Þetta er fóður inn í vinnu samráðshópsins sem er kominn af stað við að vinna út frá þessari stefnu og tekur síðan mið af nýútkominni skýrslu ríkisendurskoðanda og þeirri umfjöllun um þá sýn og stefnu sem hér er sett fram. Sú sýn og stefna sem við erum að fjalla um hér byggir á fyrri stefnu og aðgerðum og geðheilbrigðisþingi sem var eiginlega alveg magnað. Þó að ég hafi ekki fengið að taka þátt í því, eða haft tök á því, hef ég bæði lesið í gegnum greinargerðir og heyrt frá þeim sem þar voru að það var mjög jákvætt innlegg í alla þessa vinnu. Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á það að við komum með aðgerðaáætlun til þingsins sem byggist á þessari stefnu og sýn. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því hvernig hv. velferðarnefnd kemur til með að vinna úr stefnunni og skila henni síðan áfram til okkar til að vinna með aðgerðaáætlunina.

Ég fór í framsögu vel yfir áhersluþætti eitt og tvö sem snúa að geðrækt og forvörnum, og hefur verið tekið ágætlega utan um það í ræðum hv. þingmanna, þennan heildræna hátt og samþættingu þjónustunnar í áhersluþáttum eitt og tvö. Ég verð þó að fá að koma inn á mikilvægi notendasamráðs. Ég hef lagt mikla áherslu á það í þessari vinnu, bæði við stefnu og aðgerðaáætlun, að horfa til þess og vinna að notendamiðaðri þjónustu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustunnar. Ég held að það sé mikilvægt á flestum sviðum. Til að slíkur samráðsvettvangur geti þróast í þennan breiða samráðsvettvang um geðheilbrigðismál þá er lagt til, í þriðja áhersluþætti, að koma á fót geðráði þar sem stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur fjalli um málaflokkinn. Þetta er mjög mikilvægt skref sem við erum að stíga hér og hefur verð talað um það lengi, bæði af félagasamtökum og fagfólki í þessum geira. Þessi vettvangur hefur þá einnig það hlutverk að stuðla að samvinnu og samþættingu í geðheilbrigðisþjónustu og þróa leiðir til að auka þátttöku notenda í þróun og stýringu geðheilbrigðisþjónustu til framtíðar. Ég held að þetta sé afar mikilvægt skref í þessu og mikilvæg áhersla.

Í fjórða lagi er komið inn á það í þessari áætlun, og ég held að við sem höfum tekið þátt í þessari umræðu getum tekið undir það, að á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu eru nýsköpun og vísindi og þróun mikilvæg, eins og í allri annarri þjónustu, til að stuðla að betri geðheilbrigðisþjónustu og kannski ekki síst til að auka aðgengið.

Ég vil í lokin, hæstv. forseti, þakka kærlega fyrir mjög uppbyggilega umræðu og góðar ábendingar. Ég er ekki í vafa um að þær muni nýtast hv. velferðarnefnd í umfjöllun um þetta mál.