Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

Fjölmiðlafrelsi.

[11:52]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Líkt og aðrir þingmenn vil ég þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur kærlega fyrir mjög gagnlega umræðu. Eins og heyra má þá eru allir þeir sem hafa tekið til máls hér algjörlega sammála um mikilvægi þess að við stuðlum að því að umhverfi fjölmiðla styrkist. Það er svo að við erum á rauðu ljósi hvað varðar starfsumhverfi fjölmiðla. Ef við förum yfir þá umræðu sem hefur átt sér stað hér ber fyrst að nefna að það er hreinlega vegið að tjáningarfrelsi fjölmiðla á Íslandi í dag og sú staða, þ.e. hvar við erum stödd í samanburði við fjölmiðla á Norðurlöndunum, er óásættanleg. Ég vonast til þess að fjölmiðlastefnan geti tekið á þessu að einhverju leyti.

Í öðru lagi gengur tekjumódel íslenskra fjölmiðla hreinlega ekki upp. Það er ekki áskorun sem aðeins við hér á landi erum að fást við heldur um heim allan. Okkur ber skylda til þess að stuðla að því að starfsumhverfi fjölmiðla hér á Íslandi verði sjálfbært.

Að lokum vil ég ítreka þakkir mínar til þeirra sem hafa tekið til máls hér. Ég heyri það og er þakklát fyrir að þingheimur sé sameinaður í því að það þurfi að bæta starfsumhverfi fjölmiðla. Það kann að vera að við séum ekki alveg nákvæmlega sammála um leiðir en markmiðið er skýrt.