131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:30]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að karpa við hæstv. ráðherra um þetta. Mestu skiptir að við séum sammála um nauðsyn þess að ráðast í rannsóknir af þessu tagi. Það hefur komið fram að þær kunni að vera dýrar. Hv. þingmaður Magnús Þór Hafsteinsson hefur bent á það. Þær kunna að vera flóknar og að öllum líkindum þarf á samstarfi fleiri en einnar þjóðar að halda til að úr þessu verði burðug rannsókn. Ég held að menn séu sammála um þetta og það er gleðiefni.

Hæstv. ráðherra sagði undir lok ræðu sinnar, reyndar í síðustu setningu sinni, að mestu varðaði að menn væru sammála um að reyna að vernda og styrkja þá auðlind sem íslenski laxinn og ferskvatnsstofnar eru. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra. Það gladdi mig því mjög að sá stofn sem ég tel einna merkastan í íslenskum vötnum og hafa átt hvað harðast undir högg að sækja, ísaldarurriðinn í Þingvallavatni, hefur nú eignast hauk í horni þar sem er hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra gaf áðan ákaflega merka yfirlýsingu um að hann væri sammála þeim sem teldu að opna ætti urriðanum farveg niður Efra-Sogið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra nánar út í það mál. Ég óska eftir því að hann gefi örlítið gleggri grein fyrir skoðun sinni á því í stuttu máli. Með hvaða hætti telur hann t.d. best að gera þetta? Er hann sammála mér um það að við værum að greiða skuld okkar við íslenska náttúru með því að sameinast um að taka upp Steingrímsstöð og láta hið mikla útfall Þingvallavatns flæða niður um sinn gamla farveg á ný?