135. löggjafarþing — 77. fundur,  12. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[14:09]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þetta mál er hluti af samkomulagi sem gert var á sl. hausti sem miðar að því að breyta nokkuð störfum þingsins og aðbúnaði og aðstöðu þingmanna við störf sín. Þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur staðið að þessu samkomulagi og mun gera það eins og til hefur staðið og um hefur verið samið.

Það má líka benda á að þetta ákvæði samkomulagsins, þ.e. um að taka upp stöðu aðstoðarmanna þingmanna var samkomulag milli allra flokka fyrir átta árum í tengslum við kjördæmabreytinguna sem ég rakti í þingræðu við 2. umr. málsins og vísa ég til þess. Í þeim efnum eins og öðrum eiga orð að standa og stjórnmálaflokkar sem gera samkomulag af þessu tagi eiga að standa við það. Þetta átti að koma til framkvæmda árið 2003 og ég fagna því að það er loksins að verða að veruleika. (Gripið fram í.)