138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[13:02]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi innrás var náttúrlega miklu meira en umdeilanleg. Hún stríddi gegn alþjóðalögum samkvæmt yfirlýsingu aðalritara Sameinuðu þjóðanna sem ég vísaði til hér áðan. Nú eru þjóðir heimsins eiginlega allar, stjórnvöld þeirra, að færa fram í dagsljósið gögn í málinu og biðjast afsökunar á því sem gerðist, á rangfærslum, lygum og útúrsnúningum. Þess vegna kemur mér þessi málflutningur pínulítið á óvart. Við höfðum hins vegar mörg gagnrýnt þennan stríðsrekstur lengi og þær hremmingar sem írakska þjóðin var látin ganga í gegnum á tíunda áratugnum og fyrstu árum þessa áratugar. Samkvæmt mati stofnana Sameinuðu þjóðanna urðu þessar þrengingar þess valdandi að hálf milljón barna og upp undir milljón einstaklinga létu lífið. (Gripið fram í.) Þetta eru staðreyndir sem verið er að draga fram í dagsljósið núna.

Það er vísað í 60 ára sögu Íslands, fylgispekt og undirgefni Íslendinga gagnvart bandaríska herveldinu. Það finnst mér ekki beinlínis til að stæra sig af. Eigum við að taka þátt í mótmælum og andófi gegn einræðisherrum þessa heims? Að sjálfsögðu. Ég vakti hins vegar athygli á því að herlaus þjóð á að standa utan hernaðarbandalaga. Mér finnst það aumt hlutskipti að stæra sig af því að vera herlaus en taka þátt í og gleðjast yfir því þegar ungmenni annarra þjóða eru send út í opinn dauðann eða til ofbeldisverka eins og óumdeilanlega gerðist í Írak. (Gripið fram í.)