138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[16:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi umfjöllun í Morgunblaðinu um þetta mál sem hér er til umræðu láðist hv. þingmanni að geta greinarkorns sem kom á miðopnu blaðsins frá Kolbrúnu Bergþórsdóttur þar sem hún fjallaði um þetta mál og vék að efnisatriðum þess. Þetta vil ég segja bara til að bjarga þingmanninum frá að lenda í því að hafa ekki haldið til haga öllum þeim þáttum sem hv. þingmaður vildi nefna hvað varðaði umfjöllun Morgunblaðsins .

Hitt er að ástæðan fyrir því að ég spurði sérstaklega eftir því áðan þegar ég átti orðastað við hv. þingmann um afstöðu þingmannsins til þeirra lagaraka sem Eiríkur Tómasson hefur sett fram, þá hefði ég talið að við ættum von á ítarlega svari en því sem kom um að þetta væri bara eitt lögfræðiálit og ekki væri hægt að komast að neinni niðurstöðu nema undirréttur og Hæstiréttur kæmust að niðurstöðu í málinu. Ég hefði haldið að hv. þingmaður sem ber fram slíka tillögu um nauðsyn þess að setja sérstaklega af stað þingrannsóknarnefnd hefði miklar og rökstuddar efasemdir um að í því áliti sem liggur fyrir frá einum af virtustu lögmönnum þjóðarinnar á þessu sviði, Eiríki Tómassyni prófessor, og þeirri framsetningu sem prófessorinn hefur sett fram væri eitthvað sem gerði að verkum að ekki væri hægt að taka mark á þeim rökum og það yrði að setja af stað sérstaka rannsóknarnefnd til þess að fara yfir málið. Ég átti von á að fá ítarlegra svar. Ég geri mér grein fyrir því að tveggja mínútna andsvar býður svo sem ekki upp á miklar æfingar en ég átti von á því, eins og hv. þingmaður boðaði í andsvari sínu áðan, að hv. þingmaður mundi nota ræðu sína til þess að fara yfir hvaða lagarökum hún teflir gegn þeim lagarökum sem prófessor Eiríkur Tómasson hefur sett fram í sinni álitsgerð.