139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

veggjöld og samgönguframkvæmdir.

[15:21]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil í fullri hógværð minna á að ég sagði af mér ráðherraembætti út af Icesave-samningunum á sínum tíma. og núna eru þeir komnir inn í annan farveg eins og við þekkjum.

Það verður ekkert gengið lengra í skattlagningu, segir hv. þingmaður. Það er það sem ýmsir aðrir þingmenn hafa sagt líka. En hvað á þá að gera? Á hvorki að fjármagna þetta með vegatollum né hækka skatta? Þá er staðreyndin sú að peningarnir eru ekki til. (Gripið fram í.) Það er bara veruleikinn í málinu. (Gripið fram í.) Síðan er hitt sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson segir, að það þurfi að búa til aðlaðandi mynd fyrir borgarana. Ég segi: Nei, búum til raunsanna mynd, tölum um hlutina eins og þeir eru og hvað þeir kosta. Staðreyndin er sú að það ræðst af mörgum þáttum. Það ræðst af því hvers konar vegi við gerum, ætlum við að búa til 2+2 eða 2+1? Það ræður miklu um framkvæmdakostnaðinn. Krafan hefur verið 2+2 á Suðurlandi og hér vestan lands. Eigum við að breyta því? Ég er tilbúinn að skoða það. (Gripið fram í.)

Það ræðst af fjármagnskostnaði. Það er farið í forútboð á Norðurlandi vegna Vaðlaheiðarganga, m.a. til að ganga úr skugga um hver vaxtakostnaðurinn verður. Það ræður framkvæmdakostnaðinum að verulegu leyti.

Fyrst þarf að fá allar staðreyndir fram í dagsljósið áður en við getum sagt hvað þetta kemur til með að kosta. Þetta eru atvinnumál og mín skoðun er sú að það sé skynsamlegast að dreifa framkvæmdum sem víðast um landið og (Gripið fram í: Það má …) horfa til þess hvar samgöngubóta er mest þörf. Þar staðnæmist ég fyrst við Vestfirði. Þar er mest þörf á (Forseti hringir.) úrbótum. Það eru mörg atriði hérna, hæstv. forseti, sem ég hefði viljað svara en ekki er tími til. Þetta er gagnleg umræða og (Forseti hringir.) mikilvæg, en mikilvægast af öllu er að Alþingi sé sjálfu sér samkvæmt og að við tölum um hlutina eins og þeir eru.