145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni þá nýbreytni hjá hæstv. innanríkisráðherra að leggja fram, að því er virðist til kynningar, þá hugmynd að færa hringveginn, þjóðveg 1, á Austfjörðum, og þá þannig að hann liggi lengri leiðina með fjörðunum en ekki úr Breiðdal upp á Hérað. Það er vel þekkt kunnugum að þarna er um ákaflega viðkvæmt mál að ræða innan fjórðungs. Um þetta hefur ekkert samráð verið haft við þingmenn kjördæmisins svo ég viti til og stendur kannski ekki til. Það sem gerir þetta enn þá viðkvæmara er að það er engin samgönguáætlun í gildi þannig að eðlilega fara menn að velta fyrir sér: Skyldi nú verða af þessu? Eru í því fólgin skilaboð um einhverja breytta forgangsröðun fjármuna, sem reyndar engir eru að heitið geti, til framkvæmda í vegamálum?

Ég hefði nú talið allt í lagi að bíða með það að hræra í þessu þangað til að minnsta kosti búið væri að ljúka vegi um Berufjarðarbotn og þangað til búið væri að sýna á spilin með samgönguáætlun, bæði til fjögurra ára og langtímaáætlun. Að því máli, herra forseti, er það auðvitað orðið alveg yfirgengilegt að við skulum þurfa að búa við það ástand að það er engin samþykkt samgönguáætlun í gildi og í raun komið tveggja ára gat í þeim efnum.

Samkvæmt lögum nr. 33/2008, um samgönguáætlun, hvílir skýr lagaskylda á þeim sem fer með samgöngumál hverju sinni að leggja slíka áætlun fram. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi en það er og á mannamáli að ríkisstjórnin virðir ekki lög í landinu með því að gera ekki einu sinni tilraun til þess allt þetta þing að leggja nýja samgönguáætlun fyrir þingið. Það forsmánun og gengisfelling þessa málaflokks, fyrir nú utan hversu hörmulega litlum fjármunum er varið í þetta, samanber til dæmis það sem hagfræðingur Samtaka iðnaðarins talar um í dag, að innviðirnir rýrna núna hægt (Forseti hringir.) og bítandi. Það vantar 1% af vergri landsframleiðslu til þess að við höldum í horfinu í vegamálum, 22–24 milljarða á ári, bara til þess að við höldum í horfinu. Þvílíkt metnaðarleysi þessarar guðsvoluðu ríkisstjórnar í þessum málum.


Efnisorð er vísa í ræðuna