145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

samstarf Íslands og Grænlands.

23. mál
[16:54]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sem félagi 125 í Skákfélaginu Hróknum, sem hefur farið nokkrar skákferðir til Grænlands, þakka ég hv. þingmanni fyrir að rifja upp frumkvæði Hróksins undir forustu bæði Hrafns Jökulssonar forseta og varaforsetans Roberts Lagermans. Fimmtíu ferðir á þrettán árum. Ekki skulum við heldur gleyma frumkvæði KALAKS, vinafélags Grænlands og Íslands, sem hefur fengið hingað til lands hundruð grænlenskra skólabarna og kennt þeim að synda.

Hv. þingmaður spyr mig síðan út í flugsamgöngur og loftferðasamninginn. Það er alveg hárrétt hjá honum að árum sama var mikil stífni af hálfu danskra loftferðayfirvalda gegn því að gera slíkan samning. En sú góða ríkisstjórn sem ég sat í, ásamt hv. þingmanni og hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, fór í það mál af miklum þunga. Það tók langan tíma að ná slíkum samningum og bara að fá þá af stað. En þegar þeir loksins fóru af stað þá reyndist ekki erfitt að semja við Grænlendinga.

Á næstsíðasta degi ársins 2011 var skrifað undir nýjan loftferðasamning sem var gerður milli Íslands og Grænlands og hann heimilar flugsamgöngur á milli tíu áfangastaða á Íslandi og Grænlandi. Þessi samningur tekur til áætlunar- og fraktflugs millum ákveðinna staða á Grænlandi og Keflavíkur. En hafandi það í huga að sá ráðherra, utanríkisráðherra, sem gerði þann samning hafði áður verið byggðaráðherra þá gleymdist ekki landsbyggðin því að það var sérstaklega tekið fram að heimildin næði líka til Akureyrar og Egilsstaða. Þannig að millum þessara staða eru núna heimildir fyrir hendi.

Nú er Flugfélag Íslands með áætlunarflug til fleiri staða á Grænlandi en innan Íslands og fimmtungurinn af veltu Flugfélags Íslands kemur af Grænlandsfluginu. Þannig að hér er um gríðarlega mikilvæga stoð að ræða (Forseti hringir.) undir flugsamgöngum innan lands. Það herðir ekki síst á því að við eflum samstarfið. Mér finnst nú reyndar að á þessu sviði megi segja að við eigum þeim ákveðna skuld að gjalda sem við höfum þó verið að endurgreiða með því að búa til mjög stóran hóp nýrra farþega til Grænlands, farþega sem koma frá Evrópu.