149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

leiðrétting lífeyris vegna búsetuskerðinga.

[10:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Umboðsmaður Alþingis sagði um búsetuskerðingarnar að það vantaði viðhlítandi lagaheimildir og niðurstaða nefndarinnar var á þá leið að þetta væri ekki í samræmi við lög. Þarna var verið að brjóta lög á öryrkjum vegna búsetuskerðingar og nú hefur Tryggingastofnun og ráðuneytið tekið undir að það sé svo rosalega flókið að reikna þetta út.

En Tryggingastofnun skal kanna hjá erlendum stofnunum hvernig staða og greiðslur eiga sér stað. Það er skylda hennar. Hún á ekki að geta borgað út 18.000, 80.000, undir 200.000 til um 1.000 einstaklinga samkvæmt lögum fyrr en búið er að kanna þetta mál.

En þegar á að fara að endurgreiða þetta er það svo flókið. Ef einstaklingur brýtur lög gagnvart banka, ríkinu, getur hann þá sagt: Heyrðu, ég ætla ekki að borga næstu 18 mánuði eða svo af því að það er svo flókið fyrir mig að reikna þetta út? Er það hægt? Nei.

Ég spyr ráðherra þá: Hvers vegna í ósköpunum er hægt að setja þetta upp gagnvart veiku fólki? Þetta eru veikustu einstaklingarnir, þetta er fólk sem ekkert hefur brotið af sér en komið er fram við það eins og glæpamenn fyrir það eitt að veikjast eða slasast. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að ráðherra komi hér upp og svari hvers vegna í ósköpunum þið borgið þetta ekki strax.