149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

leiðrétting lífeyris vegna búsetuskerðinga.

[10:45]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt að þegar ríkinu ber skylda til að greiða eitthvað samkvæmt lögum ber því að gera það. Enginn dregur í efa þá skyldu. Hins vegar þarf að afla til þess fjárheimilda og að því höfum við verið að vinna. Það þarf líka að vita nákvæmlega hvaða upphæð þarf að borga hverjum og einum af þeim einstaklingum til að geta vitað hversu há heildarupphæðin er. Sú vinna er í gangi. Tryggingastofnun hefur upplýst með hvaða hætti verður unnið.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður vitnar til, ef það er skylda á ríkinu að greiða eitthvað breytist það ekki, hún hverfur ekki. Þess vegna hefur verið sagt nákvæmlega hvernig þetta verður gert, hvernig það verður vaxtareiknað aftur í tímann o.s.frv. En það þarf samt að afla fjárheimilda til þess og til þess þurfum við að vita hver upphæðin er. Við erum að reyna að vinna þetta eins hratt og við mögulega getum og við verðum að eiga samskipti við systurstofnanir Tryggingastofnunar. Við viljum borga þetta eins hratt og mögulegt er, viljum geta gengið frá málinu eins hratt og mögulegt er og koma því í eðlilegan farveg. Þar erum við hv. þingmaður hjartanlega sammála.