149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

innflutningur á hráu kjöti.

[10:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Eins og kunnugt er hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnt frumvarp sem heimilar innflutning á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk frá og með 1. september nk. Frumvarpið er lagt fram í kjölfar niðurstöðu EFTA-dómstólsins.

Bændasamtök Íslands hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem frumvarpsdrög ráðherra eru gagnrýnd harðlega. Nái frumvarpið fram að ganga munu hömlur á innflutningi á hráu kjöti falla niður. Í yfirlýsingunni segir að að mati Bændasamtakanna sé hagsmunum landbúnaðarins fórnað fyrir heildsala sem vilja flytja inn erlend matvæli í stórum stíl. Málið varðar einnig lýðheilsu og hafa sumir stjórnmálamenn, eins og í Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Samfylkingunni, gert lítið úr þeim málflutningi og hagsmunum landbúnaðarins.

Árið 2009 tökum við upp matvælalöggjöf Evrópusambandsins með aukaákvæði um frystiskyldu. Að sjálfsögðu skiptir þetta okkur miklu máli og sérstaklega varðandi hagsmuni okkar og útflutning á fiskafurðum, en það kemur í ljós að innleiðingin er röng og það endar með EFTA-dómi 2017. Þar er komið dómafordæmi sem er síðan rekið fyrir Hæstarétti og við stöndum uppi með skaðabótaskyldu.

Ég er þeirrar skoðunar að á árunum fyrir 2007 hefðum við getað staðið okkur betur í þessari hagsmunagæslu og hefðum átt að ná betri samningum. Framkvæmd EES-samningsins fer fram innan sameiginlegu EES-nefndarinnar og í henni sitja sendiherrar frá EFTA-ríkjunum og fulltrúar frá utanríkismálastjóra Evrópusambandsins og þeirra yfirmaður er utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, Mogherini.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hæstv. ráðherra rætt þetta mál við utanríkismálastjóra Evrópusambandsins og beitt sér pólitískt í því að ná lausn innan sameiginlegu EES-nefndarinnar? Hefur málið farið fyrir sameiginlegu EES-nefndina?