149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Sannarlega get ég tekið undir margt af því sem hv. þingmaður sagði, sérstaklega um að við þyrftum að nýta tækifærin án þess að fórna öðrum hagsmunum. Að undanförnu hefur víða komið fram gagnrýni á laxeldi í sjó. Ástæðurnar eru ýmislegar, það er lúsafár þar sem eitur er yfirleitt notað til útrýmingar, ýmsir veirusjúkdómar hafa borist í eldislax og drepið marga þeirra og svo eru náttúruspjöll af völdum úrgangs frá eldiskvíum og margvísleg óhöpp þar sem gríðarlegur fjöldi eldislaxa hefur sloppið og blandast náttúrulegum laxastofnum með alvarlegum afleiðingum. Það er m.a. af þeim sökum sem krafa hefur verið um landeldi eða eldi í vönduðum lokuðum sjókvíum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þær lagfæringar sem gerðar eru á áður samþykktu frumvarpi séu nægilegar til að varna því að við lendum í miklum vanda og nýtum tækifærin þannig að við fórnum öðrum hagsmunum. Telur hv. þingmaður að við þurfum að gera lagfæringar eða er þetta nægjanlegt?