149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:51]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að játa að ég er ekki viss um að ég sé þess umkominn að svara hv. þingmanni eins og hv. þingmaður var kannski að vonast til. Ég hygg að þetta sé akkúrat eitt af því sem hv. atvinnuveganefnd þarf að skoða sérstaklega. Ég hygg að ástæða sé til að skoða hvort þær varnir sem við erum að innleiða með frumvarpinu, sem eru vissulega framfaraskref, séu nægjanlegar. Ég vonast til þess en ég hef heyrt þau sjónarmið frá mönnum sem þekkja betur til en ég að svo sé ekki. Ég heyri líka önnur sjónarmið um að það sé jafnvel of langt gengið.

Það er verið að skylda t.d. fiskeldisfyrirtækin til að taka upp innra eftirlit. Það er verið að marka Matvælastofnun miklu víðtækara hlutverk og hún getur gripið inn í með ákveðnum hætti ef t.d. lúsafaraldur eða aðrar sýkingar koma upp. Það kann að vera að það séu fleiri girðingar sem við þurfum að reisa og ekki ætla ég að standa í vegi fyrir því.

Auðvitað er það rétt hjá hv. þingmanni, hafi ég skilið hann rétt, að landeldi er áhættuminna eða næstum því áhættulaust — þó er ekkert áhættulaust — alveg eins og fiskeldi á ófrjóum fiski, sjókvíaeldi í lokuðum kerjum o.s.frv. er betra. Að einhverju leyti getum við ýtt undir þá þróun, m.a. þegar við byrjum að ræða gjaldtöku, við getum kallað það auðlindagjald á fiskeldið. Þá er spurningin hvernig við verðum með innbyggða hvata. Það eru að vísu innbyggðir hvatar í þessu frumvarpi sem eru leyfisgjöldin. (Forseti hringir.) En við getum líka rætt það þegar kemur að auðlindagjöldum í fiskeldi. Eigum við að kalla þau það?