151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Jafnrétti, meðalhóf, réttlæti eru orð sem oft eru notuð á Alþingi. Allir eru jafnir fyrir lögum, segir stjórnarskráin, en förum við eftir því? Sjáum við til þess með lögum og reglum sem við samþykkjum hér á þingi að allir séu jafnir fyrir lögum? Er það sanngjarnt og réttlátt að sektargreiðslur mismuni fólki gróflega eftir því hvað viðkomandi hefur í laun? Hvar er réttlætið og sanngirnin í því að sá sem er á lágmarkslaunum greiði mánaðarlaun sín í sekt en sá sem er á hámarkslaunum greiði 5–10% af mánaðarlaunum sínum fyrir sama brot? Sé brotið gegn reglum um sóttkví er sektin 50.000–250.000 kr., eftir alvarleika brotsins. 250.000 kr. eru útborguð mánaðarlaun marga sem eru á lífeyrislaunum frá almannatryggingum og ótrúlega stór hópur öryrkja og eldri borgara er með enn minni útborgun og lepur dauðann úr skel í boði ríkisstjórnar eftir ríkisstjórn. 250.000 kr. sekt fyrir þennan hóp er ávísun á svelti og grimmilega refsingu í samanburði við þann sem fær útborgað 1 millj. kr. á mánuði.

Sektir eiga að hafa fælingarmátt frá því að brjóta lög og reglur. Er það ekki? Nei, greinilega ekki því að þær eru gerðar til að refsa illa þeim fátæku og bjóða þeim ríku að brjóta af sér fimm, tíu, 20 sinnum oftar áður það fer að bitna á fjárhag þeirra. Það sama á við um einstakling sem verður fyrir árás og slasast og á rétt á bótum. Brotaþoli verður þá sjálfur að fá sér lögmann og borga fyrir hann, þ.e. ef hann hefur efni á því. Ef ekki þá sækir hann um að fá gjafsókn sem nær enginn fær. Afbrotamaðurinn fær auðvitað lögmann í boði ríkisins og þarf ekki að hafa efni á því. Eiga ekki allir vera jafnir í lögum og eiga ekki fjárhagslegar refsingar að bíta alla jafnt? Nei, verið er að mismuna fólki gróflega eftir efnahag þess. Það hefur viðgengist ár eftir ár og versnar bara. Jafnrétti, meðalhóf, réttlæti, sanngirni er bara fyrir útvalda. En þorra almennings er því miður ekki boðið í þann hóp.