151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

almenn hegningarlög.

710. mál
[15:01]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hér er til meðferðar frumvarp dómsmálaráðherra um nokkur ólík og ég vil leyfa mér að segja óskyld atriði hvað varðar breytingar á almennum hegningarlögum. Ég ætla að láta mér nægja í dag að fjalla um breytingu á því ákvæði sem varðar barnaníðsefni. Ég vil segja í því sambandi að ég styð þær breytingar og mun leggja mitt af mörkum til að þær geti orðið að lögum hið fyrsta. Ástæðan er sú að samhliða framþróun tækninnar er orðið mun auðveldara en áður að verða sér úti um barnaníðsefni og dreifa því. Brot af því tagi sem eru að koma upp og við höfum t.d. nýlega séð í fjölmiðlum hvað varðar stór og umfangsmikil mál lögreglunnar og ákæruvaldsins á Norðurlöndunum sýna okkur að málin eru umfangsmeiri, skipulagðari og grófari en áður. Framleiðsla og dreifing barnaníðsefnis er í ákveðnum tilvikum beinlínis liður í skipulagðri glæpastarfsemi, það er iðnaður með mikla fjárhagslega veltu þar sem brotið er kynferðislega gegn börnum með skipulögðum hætti. Staðan kallar á að það ákvæði hegningarlaga sem við búum við í dag verði uppfært þannig að það geti náð tilgangi og markmiðum sínum og geti náð utan um þennan nýja veruleika, vil ég leyfa mér að segja.

Þegar dómar fyrir brot gegn þessu ákvæði, 210. gr. a, eru rýndir má jafnframt sjá að í þeim málum sem hafa verið talin stórfelld fram til þessa hafa sakborningar verið með tugi þúsunda mynda eða myndbanda í fórum sínum, í einhverjum tilvikum af afar ungum börnum og efni sem sýnir afar gróf kynferðisbrot. Í þeim veruleika blasir við að refsirammi sem er að hámarki tvö ár fyrir stórfelld brot nær ekki að spegla alvarleika brotanna. Sá refsirammi sem hér er verið að leggja til, að hámarki sex ára fangelsi, nær með sterkari hætti utan um stórfelld mál sem eru því miður, eins og við sjáum víða, stærri í dag en þau voru fyrir einhverjum árum, stærri í þeirri merkingu að menn sem eru með í vörslu sinni þetta efni eru með mikið magn, meira en áður, vegna þess hve aðgengilegt efnið er og vegna þess hve auðvelt er orðið að viða að sér gríðarlega miklu magni af mjög grófu barnaníðsefni. Ég ætla að hlífa þingsalnum við að ræða hér hvað má sjá á svona myndum og svona myndefni. En ég ætla að láta nægja að segja að það þekki ég úr fyrra starfi.

Með þessari breytingu fengjum við refsiramma sem er á svipuðum slóðum og nú er annars staðar á Norðurlöndunum. Ég hef sjálf skoðað þróunina að þessu leyti á Norðurlöndunum og finnst jákvætt og mikilvægt og raunar nauðsynlegt að löggjöf okkar sé í samræmi við löggjöf annarra Norðurlanda. Það hefur einfaldlega praktíska þýðingu þegar lögregla vinnur að málum þvert á landamæri vegna þess að menn eru í samskiptum á netinu eða í gegnum tiltekna samskiptamiðla.

Mig langaði aðeins til að fjalla um þróunina og veruleika þessarar brotastarfsemi. Ég nefni sem dæmi sérstök spjallsvæði á netinu sem auðvelda því miður samskipti að þessu leyti og aðgengi að efninu. Á slíkum svæðum hafa menn ekki aðeins deilt barnaníðsefni með öðrum heldur hafa þeir jafnframt getað lagt á ráðin um að brjóta eigi með tilteknum hætti gegn barni til að horfa síðan á það þegar brotið er framið gegn barninu eða til að eiga síðan það efni. Slíkt efni getur auðvitað í kjölfarið náð mjög mikilli útbreiðslu. Brot gegn barni í þessari stöðu felst annars vegar í því að verið er að beita barnið kynferðislegu ofbeldi og hins vegar í því að efni sem sýnir brotið er aðgengilegt öðrum brotamönnum á netinu. Og sem fyrr eru það börn í viðkvæmri stöðu á ákveðnum svæðum sem eru í mestri hættu gagnvart brotum af þessu tagi, börn í ákveðnum löndum og á svæðum þar sem iðnaður sem þessi þrífst.

Ég nefni almenna notkun snjallsíma sem eitt atriði. Gerendur sem brjóta kynferðislega gegn barni eða börnum eiga auðveldara með það en áður að taka um leið ljósmyndir eða myndskeið af brotum. Það á líka við þegar kynferðisbrot eru framin af nákomnum inni á heimili barns. Eftir situr efni sem menn hafa síðan ýmist í vörslu sinni eða dreifa sín á milli. Þá geta gerendur í kynferðisbrotum í raun verið komnir í þá stöðu að vera farnir að framleiða eigið barnaníðsefni og geta svo deilt því með öðrum og dreift á netinu.

Varðandi einstök efnisatriði þessa frumvarps sem má nefna sérstaklega og hafa þýðingu þá er hér lagt til að bæta við orðinu „dreifa“ í upptalningu verknaðaraðferða. Núverandi orðalag ákvæðisins tilgreinir auðvitað að það er refsivert að afla sér eða öðrum þessa efnis. En með því að bæta við orðinu dreifa geri ég ráð fyrir að horft sé til þess að aukin útbreiðsla þessa efnis felst ekki síst í því að menn eru að dreifa þessu efni, ekki bara í samskiptum tveggja tiltekinna einstaklinga heldur til mikils fjölda manna, t.d. á spjallsvæðum eða með öðrum hætti á netinu og jafnvel til ótilgreinds fjölda manna. Ég geri ráð fyrir að þess vegna sé nú talin ástæða til að bæta þessu við og tilgreina orðið dreifa sérstaklega í ákvæðinu núna, enda þótt sú háttsemi að afla öðrum barnaníðsefnis sé nú þegar refsiverð.

Hér er líka lagt til að lögfest verði sérstakt ítrekunarákvæði sem er jákvæð breyting. Sé maður dæmdur fyrir brot gegn ákvæðum annaðhvort 210. gr. a eða b megi samkvæmt þessari heimild hækka refsingu um allt að helming. Það ákvæði þjónar þeim tilgangi að taka fastar á þeim málum og þeim sakborningum sem áður höfðu verið dæmdir fyrir svo alvarleg brot gegn börnum. Það er að mínu viti af hinu góða og að mínu viti heilbrigð refsipólitík.

Í ákvæðinu eru líka lögð til ákveðin sjónarmið sem líta á til við mat á alvarleika brots, atriði sem á að líta til við ákvörðun refsingar. Það er sömuleiðis jákvætt í mínum huga og af hinu góða og rammar inn ákveðinn vegvísi fyrir lögreglu, ákæruvald og dómstóla í þeim efnum sem er gott að hafa skýrlega afmarkað hver eigi að vera. Hér er líka lagt til ákvæði sem hæstv. dómsmálaráðherra fjallaði um sem varðar refsileysi í ákveðnum tilvikum þegar unglingar senda t.d. myndir sín á milli. Það er góð tillaga. Ég styð hana einnig. Hana þarf að vinna og útfæra út frá þeim sjónarmiðum sem dómsmálaráðherra rakti rétt í þessu en hún er af hinu góða.

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu máli og að það komi hér fram vegna þess að ég hef þá trú að hér sé um mikilvægar réttarbætur að ræða.

Ég ætla í lokin aðeins að tala um vinnubrögð og virðingu fyrir þeim hagsmunum sem eru að baki einstaka þingmálum. Í þessu máli vil ég leyfa mér að segja að hagsmunirnir séu miklir. Ég vísa til þess sem að framan er rakið um vernd barna fyrir barnaníði á netinu. Ég hefði viljað sjá þær réttarbætur verða að veruleika fyrr. Hefði svo getað verið? Já. Í nóvember í fyrra lagði ég fram, ásamt mörgum meðflutningsmönnum úr öllum flokkum hér á þingi, frumvarp um breytta skilgreiningu á barnaníðsefni í almennum hegningarlögum og nýjan refsiramma fyrir slík brot. Málið fékk jákvæðar viðtökur og jákvæða umfjöllun. Mér fannst gott að finna stuðninginn við málið hér á þingi og af hálfu umsagnaraðila, fagaðila innan réttarkerfisins og grasrótarsamtaka. Hagsmunirnir að baki voru brýnir og eru enn, vil ég leyfa mér að segja. Markmiðið var að uppfæra löggjöf okkar þannig að hún gæti náð til umfangsmeiri og alvarlegri mála og verndað börn betur fyrir þessum brotum.

Ég leyfi mér að vísa til þess að í umfjöllun Kompáss á Stöð 2 í vetur var okkur sýnt fram á það, því miður, að þörfin fyrir það að íslensk löggjöf sé á pari við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum er svo sannarlega fyrir hendi. Þess vegna var í mínum huga engin sérstök ástæða til að bíða með að vinna þetta mál. Lögregla hefur t.d. núna til meðferðar nokkuð stór mál, samanber það sem kom fram í þessum sama sjónvarpsþætti um að þau séu nú til rannsóknar. Við sáum einfaldlega að það var enginn pólitískur ágreiningur um þetta mál. Það sjáum við á því að meðflutningsmenn komu úr öllum flokkum. Málið er kannski heldur ekki þess eðlis. Það var tilbúið til umræðu og vinnu af hálfu þingsins.

Ég ætla að leyfa mér að segja að við hefðum getað sparað okkur öllum vinnu við það að vera með tvö mjög lík, nánast eins mál til meðferðar á sama tíma. Það hefði getað sparað starfsfólki ráðuneytis ákveðna vinnu við að vinna eitthvað sem þegar lá fyrir og hefði getað sparað vinnu við það að fara að leita aftur álits hagsmunaaðila á sama efni. Við erum að sóa tíma og fjármunum með því að standa hér í þingsal í dag að ræða mál, eins og það sé nýtt, sem við vorum með til meðferðar fyrir allmörgum mánuðum síðan. Frumvarp dómsmálaráðherra leggur til sama refsihámark. Það leggur til sömu ítrekunarheimild, það nefnir sömu verknaðaraðferðir, fjallar um sjónarmið sem líta á til við mat á alvarleika brota. Ég leyfi mér að nefna þessa forsögu hér vegna þess að mér finnst þessi tímasóun hafa verið ákveðinn óþarfi.

Herra forseti. Það er einlæg von mín að það mál sem dómsmálaráðherra leggur hér fram geti orðið að lögum hið fyrsta.