151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

meðferð sakamála.

718. mál
[15:15]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um meðferð sakamála, en markmið frumvarpsins er að bæta réttarstöðu brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda látinna einstaklinga og bregðast þannig við breyttum samfélagslegum viðhorfum til aðkomu þessara aðila að málum sem þá varða, hvort heldur á rannsóknarstigi hjá lögreglu eða eftir að mál er komið fyrir dóm. Þeim breytingum sem lagðar eru til í því skyni að bæta réttarstöðu brotaþola við meðferð mála má í grófum dráttum skipta í fernt, en rétt er að vekja athygli á því þegar í stað að ekki er gert ráð fyrir að þær taki til allra brotaþola heldur takmarkist við þolendur alvarlegustu brota gegn líkama og persónu. Ekki er óeðlilegt að þeir brotaþolar njóti ríkari réttar að þessu leyti en þolendur vægari brota og lögaðilar sem telja að á sér hafi verið brotið.

Í fyrsta lagi er lagt til að í málum þar sem brotaþoli hefur fengið tilnefndan réttargæslumann skuli lögregla upplýsa hann um framvindu máls nema talið verði að það torveldi rannsóknina. Samkvæmt gildandi lögum ber lögreglu nú aðeins, eftir því sem við á, að leiðbeina brotaþolum um réttindi hans samkvæmt lögum. Í þessu felst umtalsverð breyting þar sem frumkvæðisskylda er lögð á lögreglu að upplýsa brotaþola eða réttargæslumann um hvernig rannsókn vindur fram eftir því sem tilefni er til.

Í öðru lagi er í frumvarpinu kveðið á um ríkari rétt réttargæslumanns til aðgangs að rannsóknargögnum en nú er gert. Í gildandi lögum kemur þannig fram að á meðan rannsókn standi eigi réttargæslumaður einungis rétt á að fá aðgang að þeim gögnum sem varða þátt skjólstæðings hans í málinu og honum eru nauðsynleg til að gæta hagsmuna skjólstæðingsins. Lagt er til að í stað þess að takmarka þennan aðgang við gögn sem varða þátt brotaþola verði kveðið á um rétt réttargæslumanns til aðgangs að gögnum málsins sem varða brotaþola, nema lögregla telji hættu á að rannsókn torveldist við það. Að auki verði kveðið á um að réttargæslumaður eigi jafnframt rétt á að fá afhent þau gögn sem honum eru nauðsynleg til að gæta hagsmuna skjólstæðings síns, en áréttað er að ekki er víst að ávallt falli saman réttur til aðgangs að gögnum sem varða brotaþola og gögn sem réttargæslumaður eða brotaþoli á rétt á að fá afhent, þar sem þau eru honum nauðsynleg til að gæta hagsmuna skjólstæðings síns. Slíkt verður að ráðast af atvikum hvers máls en í einhverjum tilvikum kynni réttur til að fá gögn afhent að vera þrengri en réttur til aðgangs að gögnum.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar í því augnamiði að tryggja að bótakrafa á hendur sakborningi komist að á áfrýjunarstigi, jafnvel þótt ákærði hafi verið sýknaður í héraði. Er hér átt við svonefndar einkaréttarkröfur samkvæmt 1. mgr. 172. gr. laga um meðferð sakamála þar sem segir að brotaþoli og hver sá annar sem telur sig hafa öðlast kröfu að einkarétti á hendur sakborningi vegna refsiverðrar háttsemi hans geti leitað dóms um hana í sakamáli. Samkvæmt skýlausum fyrirmælum gildandi laga um meðferð sakamála ber nú að vísa slíkri kröfu af sjálfsdáðum frá dómi ef sakamál er fellt niður, því vísað frá dómi eða ákærði sýknaður með dómi án þess að það hafi verið vegna þess að hann sé talinn ósakhæfur. Af því leiðir m.a. að jafnvel þótt ákæruvaldið ákveði að áfrýja sýknudómi hefur kröfuhafi engin úrræði til þess að koma kröfu sinni að við áfrýjunarmeðferð, enda telst hann ekki aðili að sakamálinu og hefur því ekki heimild til að kæra frávísun bótakröfunnar. Með öðrum orðum fellur bótakrafa í raun niður við sýknudóm í héraði og gildir þá einu þótt ákærði sé síðar sakfelldur á æðra dómstigi.

Lagt er til að við 193. gr. laga um meðferð sakamála bætist ný málsgrein sem fjalli um aðstæður sem þessar. Samkvæmt henni yrði kröfuhafa heimilt án kæru að koma að við meðferð áfrýjunarmálsins kröfu um ómerkingu og heimvísun héraðsdóms hvað kröfu sína varðar. Rétt er að taka fram að ástæða þess að kröfuhafi getur einungis gert kröfu um ómerkingu og heimvísun héraðsdóms hvað kröfuna varðar er sú að þar sem krafan hefur aldrei verið dæmd að efni til á fyrsta dómstigi er ekki heimilt að taka efnislega afstöðu til hennar á áfrýjunarstigi. Verði fallist á ómerkingu héraðsdóms hvað kröfuna varðar, sem í flestum tilvikum yrði á grundvelli sakfellingar ákærða á áfrýjunarstigi, færi krafan til meðferðar að nýju í héraðsdómi í sérstöku einkamáli.

Þá er í fjórða lagi lagt til að við 42. gr. laganna bætist ný málsgrein í því skyni að tryggja að í þeim tilvikum sem bótakrafa brotaþola er ekki til endurskoðunar við áfrýjunarmeðferð, sé engu að síður heimilt að skipa honum réttargæslumann við þá meðferð, enda sé nauðsynlegt að taka skýrslu af brotaþola á áfrýjunarstigi.

Hæstv. forseti. Í þeim breytingum sem lagðar eru til á réttarstöðu fatlaðs fólks má einnig greina fjóra þætti. Í fyrsta lagi er lagt til að við lögin bætist heimild til þess að taka skýrslu af brotaþola, eða vitni með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun, í sérútbúnu húsnæði. Er hér litið til skilgreiningar 2. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, en þar er fatlað fólk skilgreint svo:

„Fólk með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við.“

Með hliðsjón af velferð brotaþola og vitna sem undir ákvæðið geta fallið þykir full ástæða til þess að bæta heimild sem þessari við lög um meðferð sakamála.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á 59. gr. laga um meðferð sakamála en þar er fjallað um hvenær skal eða er heimilt að taka skýrslu af brotaþola eða öðrum vitnum fyrir dómi á meðan mál er enn á rannsóknarstigi. Lagt er til að skýrt verði tekið fram í lögunum að ákvæðinu megi beita í ákveðnum tilvikum ef brotaþoli eða vitni er með geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun.

Í þriðja lagi er lagt til í frumvarpinu að fötluðum sakborningi eða fötluðu vitni verði boðið að hafa með sér hæfan stuðningsaðila við skýrslutöku, hvort heldur hjá lögreglu eða fyrir dómi. Þessi stuðningsaðili gæti t.d. verið réttindagæslumaður fatlaðs fólks eða annar hæfur aðili sem sjálfur er ekki vitni eða sakborningur í máli.

Í fjórða lagi er lagt til að heimild dómara til að kveðja til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku verði rýmkuð. Samkvæmt gildandi lögum nær heimildin einungis til þess er tekin er skýrsla af vitni yngra en 15 ára en með frumvarpinu er lagt til að hún taki einnig til þess ef um fatlað vitni er að ræða.

Hæstv. forseti. Að lokum eru með frumvarpinu lagðar til tvenns konar breytingar í því skyni að bæta réttarstöðu aðstandenda látins einstaklings og veita þeim betra færi á að fylgjast með framgangi lögreglurannsóknar. Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að skipa brotaþola svonefndan fyrirsvarsmann í tveimur tilvikum, þ.e. ef brotaþoli er ólögráða eða lögaðili, og hefur fyrirsvarsmaður sömu réttarstöðu og ef hann hefði sjálfur talið sig hafa beðið tjón af refsiverðri háttsemi. Af þessu leiðir til að mynda að á lögreglu og ákæruvaldi hvíla ákveðnar leiðbeiningar- og upplýsingaskyldur gagnvart fyrirsvarsmanni.

Lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 39. gr. laganna þar sem kveðið verði á um að ef rannsókn máls varði orsök andláts einstaklings geti maki eða sambúðarmaki, lögráða barn eða annar lögráða niðji, foreldri eða lögráða systkini hins látna komið fram sem fyrirsvarsmaður hins látna. Einungis er gert ráð fyrir því að einn þessara aðila geti komið fram sem fyrirsvarsmaður látins brotaþola. Þá er rétt að taka fram að ástæða þess að orðið „einstaklingur“ er notað en ekki „brotaþoli“ í þessu sambandi er sú að ekki er ávallt ljóst í upphafi rannsóknar hvort andlát verði rakið til saknæmrar hegðunar eða til að mynda til slysfara. Rétt þykir að aðstandandi eigi þess kost að honum verði skipaður fyrirsvarsmaður jafnvel þótt ekki sé ljóst í upphafi hvort hinn látni teljist brotaþoli eður ei. Þessu nátengt er lagt til að fyrirsvarsmaður látins einstaklings geti að eigin ósk fengið tilnefndan réttargæslumann ef hann hefur að mati lögreglu þörf fyrir slíka aðstoð meðan á rannsókn málsins stendur. Það verður að velta á atvikum hvers máls hvort slík þörf sé talin fyrir hendi en áréttað skal að réttargæslumaður fyrirsvarsmanns hefur fyrst og fremst þær skyldur að gæta hagsmuna hins látna undir rannsókn málsins. Ekki er um að ræða réttargæslumann aðstandenda sem slíkra en af því leiðir að hlutverk réttargæslumanns í þessu tilliti er til að mynda ekki að setja fram einkaréttarkröfu samkvæmt XXVI. kafla laganna.

Ég hef nú farið yfir helstu efnisatriði frumvarpsins. Að öðru leyti vísast til greinargerðar þess og athugasemda við einstök ákvæði. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.