151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

709. mál
[21:58]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og umræðuna. Já, þetta er mikilvægt atriði sem hér er komið inn á, um stærðarmörkin, og er kannski hluti af enn stærri umræðu. Ég hef sjálfur margoft rætt það varðandi vatnsaflið, þar sem oft og tíðum hafa komið fram hugmyndir um 9–9,5 eða 9,9 MW virkjanir, að kannski væri skynsamlegra að miða við áhrifin af slíkum virkjunum frekar en akkúrat þetta 10 MW viðmið sem á rætur sínar að rekja til laga um mat á umhverfisáhrifum. Ég vil því meina að þetta sé kannski hluti af þeirri umræðu. Hér var einfaldlega tekin sú ákvörðun að gera ekki breytingar hvað þetta varðar, hafa þetta í samræmi við lögin eins og þau eru núna, þó svo að ég taki undir það með hv. þingmanni að mér finnist að þetta sé eitt af þeim atriðum sem við þurfum að horfa til í framtíðinni. Ég held að í flestum tilfellum sé kannski ekki endilega hagkvæmt að fara í minni vindorkuver en 10 MW, þau séu í flestum tilfellum talsvert stærri með fleiri vindmyllum, en vissulega gætu alveg verið dæmi um að ráðist yrði í að setja upp eina eða tvær, þær eru nú orðnar 2–4 MW og meira að segja allt upp í 7–9 MW þær allra stærstu, ef ég þekki þetta rétt. Ætli ég láti þetta ekki nægja í bili.