151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

709. mál
[22:00]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að við hæstv. ráðherra skulum deila áhyggjum af því að 10 MW séu of há mörk. Ég er hjartanlega sammála honum um að skynsamlegra væri að miða við áhrif frekar en megavöttin ein og sér. Ef ég man rétt voru fyrstu Sogsvirkjanirnar vel undir 10 MW en höfðu óafturkræf áhrif á landsvæðið í kringum sig þannig að við eigum margra áratugasögu um virkjanir sem eru litlar í megavöttum en stórar í áhrifum. Ráðherra segir að þetta sé eitthvað sem eigi að skoða í framtíðinni, en við erum í nútímanum. Við erum hér í dag að ræða frumvarp sem horfir einmitt inn í þessa framtíð. Hér er verið að setja rammann utan um framkvæmdir sem eiga að standa lengi og ef það er skynsamlegra að miða við áhrifin frekar en uppsett afl, eins og hæstv. ráðherra segist vilja gera, af hverju er það þá ekki gert í frumvarpinu? Það er ekkert náttúrulögmál sem segir að það eigi að vera sömu megavattsviðmið í vindorku og í vatnsorku í rammaáætlun eða að það eigi að vera sömu megavattsviðmið í lögum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um rammaáætlun. Þetta eru allt saman lög sem við setjum hér og geta tekið mið af aðstæðum. Ef það er skynsamlegra að miða við áhrif af uppsettum vindorkuverum frekar en það afl sem þar er framleitt, af hverju gerum við það þá ekki hér og nú frekar en í einhverri óræðri framtíð þegar skaðinn er skeður?