151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

709. mál
[22:02]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að mínu mati þarf það einfaldlega frekari skoðunar og greiningar við ef við ætlum að stíga það skref sem við hv. þingmaður ræðum hér, þ.e. að við eigum frekar að miða við áhrifin en ákveðna megavattstölu, sem er 10 MW í þessu tilfelli. Það skref var einfaldlega ekki stigið hér. Ég taldi mikilvægara að koma fram með málið, koma fram með þennan ramma, með þetta utanumhald utan um vindorkuna, því að það var orðið bráðnauðsynlegt að gera það í stað þess að tefja málið enn frekar með því að ráðast í þetta atriði. Það er bara ákvörðun sem maður þarf að taka þegar um svona lagasetningu er að ræða. Auðvitað er einfalt að breyta stærðarmörkum ef maður vill hafa stærðarmörk. Það er hægt að segja 5 í staðinn fyrir 10 eða 15 í staðinn fyrir 10. En það er ekki alveg eins einfalt að fara þá leið að ætla að miða við áhrifin vegna þess að þá þarf að skoða hvað eru áhrif sem er ásættanlegt að fari ekki inn í rammaáætlun. Kannski má segja að að vissu leyti séum við samt sem áður byrjuð að feta okkur út á þá braut með því frumvarpi og þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til skoðunar vegna þess að þar horfum við einmitt til ákveðinna áhrifaþátta fyrir ákveðin svæði sem falla í þennan flokk 2. Og kannski er það byrjunin á því sem við hér ræðum, en það er seinni tíma mál að taka það til skoðunar.