152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[15:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um almannatryggingar og lögum um húsnæðisbætur. Í frumvarpinu felast tillögur að mótvægisaðgerðum til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör og kaupmátt viðkvæmustu hópa samfélagsins.

Verðbólga mældist 7,2% á ársgrundvelli í apríl sl. Hún var 6,7% í mars. Verðhækkanir á húsnæði eru enn megindrifkraftur verðbólgu en verðbólga án húsnæðis var 5,3% í apríl og hækkaði frá 4,6% í mars. Er það til marks um að verðhækkanir eru á breiðari grunni en áður. Þá hefur matvælaverð hækkað um 5%, bæði vegna innlendra og erlendra þátta.

Í nýlegri verðbólguspá Seðlabanka Íslands er gert ráð fyrir að verðbólga hækki áfram og verði rúmlega 8% á þriðja ársfjórðungi ársins. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur brugðist við verðbólguhorfum með hækkun vaxta. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur vaxið árlega síðastliðinn áratug. Sparnaðarhlutfall heimila er hátt, vanskil eru lítil og samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar hefur hlutfall heimila, sem eiga erfitt með að ná endum saman, aldrei verið lægra en á síðasta ári. Heilt yfir er því fjárhagsstaða heimila almennt sterk og viðnámsþróttur þeirra til að mæta áhrifum hækkandi verðlags og hærri vaxta nokkur.

Staða heimila til að takast á við vaxta- og verðlagshækkanir er þó ólík og líklegt að hærri verðbólga rýri lífskjör viðkvæmra hópa talsvert meira en annarra. Þess vegna er í frumvarpinu sérstaklega horft til þess að draga úr áhrifum verðbólgu á viðkvæmustu hópa samfélagsins. Í því samhengi er horft til aðila á leigumarkaði sem fá húsnæðisbætur, forráðamanna sem fá tekjutengdar barnabætur og aðila utan vinnumarkaðar sem reiða sig á bætur almannatrygginga. Lagt er til að hækka bætur almannatrygginga, greiða sérstakan barnabótaauka til þeirra sem eiga rétt á tekjutengdum barnabótum og hækkun húsnæðisbóta er hluti málsins sömuleiðis. Þannig er stutt við sértækan hóp einstaklinga með markvissum hætti.

Ég vil hér fara yfir einstök efnisatriði frumvarpsins og fyrst sérstakan barnabótaauka. Hér er tillaga um að til viðbótar almennum barnabótum skuli greiða sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 20.000 kr. með hverju barni til þeirra sem fá ákvarðaðar barnabætur við álagningu opinberra gjalda á árinu 2022. Barnabótaaukinn verður ákvarðaður sem föst fjárhæð á hvert barn sem öðlast heimilisfesti hér á landi á tekjuárinu 2021 og tekur ekki skerðingu í hlutfalli við dvalartíma þess. Sérstakur barnabótaauki telst ekki til skattskyldra tekna og leiðir ekki til skerðingar annarra tekna, svo sem bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá verður hinum sérstaka barnabótaauka ekki skuldajafnað á móti vangreiddum opinberum gjöldum til ríkissjóðs eða sveitarfélaga eða vangreiddum meðlögum. Um einskiptisaðgerð er að ræða og er gert ráð fyrir að skatturinn ákvarði barnabótaaukann til einstaklinga um mánuði eftir álagningu opinberra gjalda eða þann 1. júlí nk., að því gefnu að frumvarpið hafi verið samþykkt.

Í upphafi árs 2022 voru viðmiðunarfjárhæðir barnabóta hækkaðar um 5,5–5,8%, neðri skerðingarmörk um 8% og efri skerðingarmörk um 12%. Þessar breytingar rúmuðust innan 14 milljarða kr. útgjaldaramma barnabóta þar sem miklar launahækkanir hefðu annars leitt til þess að bæturnar hefðu dregist saman. Til viðbótar við almennar barnabætur hefur jafnframt verið greiddur sérstakur barnabótaauki síðustu tvö ár sem var 1,6 milljarðar kr. árið 2021 og 3 milljarðar kr. árið 2020.

Í öðru lagi, um bætur almannatrygginga og félagslega aðstoð, er í frumvarpinu lagt til að bætur almannatrygginga hækki og bætur til félagslegrar aðstoðar. Bætur ellilífeyrisþega hækkuð um 4,6% um síðustu áramót í samræmi við forsendur fjárlaga yfirstandandi árs og bætur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega um 5,6%. Til að milda áhrif verðbólgu á framangreinda hópa er gert ráð fyrir að bætur verði hækkaðar um 3% frá 1. júní nk. og að framfærsluviðmið örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, vegna sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu, hækki einnig um 3%.

Og þá að húsnæðisbótum: Hér er lagt til að grunnfjárhæð húsnæðisbóta hækki um 10% frá 1. júní nk. og að frítekjumörk húsnæðisbóta hækki jafnframt um 3% til samræmis við fyrirhugaða hækkun bóta almannatrygginga. Lagt er til að hækkun frítekjumarka um 3% taki gildi með afturvirkum hætti frá 1. janúar á þessu ári til að hægt verði að framkvæma lokauppgjör og leiðréttingu húsnæðisbóta í samræmi við ákvæði laga um húsnæðisbætur. Samkvæmt mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar nemur stærð leigumarkaðar hér á landi rúmum 32.000 íbúðum en áætlað er að tæplega helmingur þeirra sé í húsnæðisbótakerfinu. Þá er áætlað að a.m.k. 70% þeirra sem fá húsnæðisbætur séu með vísitölutengda leigusamninga.

Varðandi mat á áhrifum tillagna frumvarpsins þá er kostnaður ríkissjóðs af sérstökum einskiptisbarnabótaauka frá 1. júlí nk., að fjárhæð 20.000 kr., áætlaður um 1,1 milljarður. Kostnaður við hækkun bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar um 3% frá 1. júní nk. er áætlaður 3–3,5 milljarðar kr. en 5–5,5 milljarðar á ársgrundvelli. Verði frumvarpið að lögum munu grunnfjárhæðir húsnæðisbóta hækka um 10% frá 1. júní. Frítekjumörk húsnæðisbóta hækka um 3% til samræmis við hækkun bóta almannatrygginga. Eins og ég hef áður nefnt er gert ráð fyrir að hækkun frítekjumarka húsnæðisbóta taki gildi afturvirkt. Það er vegna þess að ekki væri ella unnt að framkvæma lokauppgjör og leiðréttingu húsnæðisbóta. Kostnaður við hækkunina nemur um 600 millj. kr. á yfirstandandi ári og um 1 milljarði kr. á ársgrundvelli.

Í forsendum fjárlaga yfirstandandi árs var ekki gert ráð fyrir áðurnefndum útgjöldum. Á hinn bóginn er einungis rétt um þriðjungur liðinn af árinu og í sjálfu sér nægar fjárheimildir til staðar fyrir árið í heild sinni. Ef í ljós kemur síðar á árinu að útgjöld viðkomandi málaflokka stefni í að verða umfram fjárheimildir kemur til skoðunar að fjárheimildir verði millifærðar af almennum varasjóði fjárlaga eða að aukinna heimilda verði aflað í frumvarpi til fjáraukalaga næsta haust til að mæta áhrifum af þessum hærri verðlagsforsendum fyrir bótagreiðslum í frumvarpinu. Þá víkur að áhrifum frumvarpsins á jafnrétti kynjanna. Á síðasta ári var greiddur sams konar barnabótaauki og lagt er til að nú sé gert. Féllu þá 62% barnabótaaukans í hlut kvenna samkvæmt niðurstöðu álagningar 2021. Áætlað er að hlutfallið verði svipað í ár verði frumvarpið að lögum. Almannatryggingakerfið nýtist fremur konum en körlum þar sem þær eru almennt með lægri tekjur aðrar en greiðslur frá almannatryggingum sér til framfærslu. Konur eru að jafnaði tvöfalt fleiri en karlar meðal öryrkja og hafa síður atvinnutekjur auk þess sem aldraðar konur hafa almennt lægri tekjur en aldraðir karlar.

Hækkun húsnæðisbóta og frítekjumark þeirra er til þess fallin að styðja við tekjulægstu hópa leigjenda. Viðtakendur húsnæðisbóta eru að meiri hluta til barnlaus heimili. Í þeim hópi er hlutfall kvenna og karla nokkuð jafnt enda þótt konur séu líklegri en karlar til að vera á leigumarkaði ásamt því að vera líklegri en karlar til að leigja félagslegt húsnæði hjá sveitarfélögum eða námsmannahúsnæði. Sé litið til heimila þar sem fyrir hendi er einn fullorðinn ásamt börnum er hinn fullorðni aftur á móti í yfirgnæfandi meiri hluta konur.

Virðulegi forseti. Ég held að þetta mál sé brýnt. Ég myndi helst af öllu óska þess að málið fengi forgang hér í þinginu, í þinglegri meðferð. Mér finnst mikilvægt að það hafi komist hér strax á dagskrá þó að fjöldinn allur af 1. umr. málum hafi enn ekki komist á dagskrá og það er þakkarvert að það skyldi takast. Við viljum að sjálfsögðu leggja allt á okkur í fjármálaráðuneytinu en það sama gildir, veit ég, um félagsmálaráðuneytið og innviðaráðuneytið, ef það eru atriði sem nefndin þarf að kafa dýpra í þá eru allir boðnir og búnir að veita frekari upplýsingar. Þetta er það sem ríkisstjórnin telur mikilvægt að sé gert núna í ljósi nýjustu verðbólgumælinga og í ljósi vaxtahækkana Seðlabankans. Við munum að sjálfsögðu áfram fylgjast mjög náið með framvindu mála. Í gangi er mikil vinna við að greina stöðuna á húsnæðismarkaði. Sérstakur húsnæðishópur hefur verið að störfum til að bregðast við þeirri staðreynd að húsnæðisliður vísitölunnar heldur áfram að hækka og hefur ekki séð fyrir endann á því. Það er þess vegna ein lykilaðgerða ríkisstjórnarinnar að koma með úrbætur á húsnæðismarkaði í samvinnu við aðila vinnumarkaðar, sveitarfélögin og aðra þá sem hafa komið að því starfi. Ég vænti þess að sú vinna verði til umræðu á fundi þjóðhagsráðs nú síðar í þessari viku. Ég hygg að hann sé á morgun, ef ég man rétt, og þar verði farið yfir tillögur sem hafa fæðst á undanförnum vikum og mánuðum og látið á það reyna hvort aðilar sem geta haft áhrif á þróun þeirra mála eru orðnir sammála um meginaðgerðir. Það skiptir máli til hliðar við þetta vegna þess að meginverkefnið er auðvitað að ná tökum á verðlagsþróuninni. Við ræddum það hér aðeins í óundirbúnum fyrirspurnum rétt áðan að ríkisfjármálin gegna hlutverki í því efni. Við getum ekki gleymt okkur í því að ræða eingöngu um viðbrögð fyrir þá sem verða fyrir verðbólgunni. Við verðum á sama tíma að hafa getu til að ræða um aðgerðir sem eru líklegar til þess að hægja á hækkun verðlags í landinu og komast aftur inn fyrir viðmið sem við höfum sett okkur í því efni, 2,5%, og vera innan vikmarka frá því.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu vil ég leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.