152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum kannski fyrst og fremst verið að horfa til atvinnustigsins í landinu og þeirrar staðreyndar að atvinnuleysi hefur verið á niðurleið og sú þróun er nokkuð jákvæð. Ég get sagt af eigin reynslu, vegna þess að ég var á ferðinni víða um landið fyrir nokkrum dögum, að það er áberandi hversu víða er leitað eftir fólki. Það vantar t.d. mörg hundruð manns til vinnu á Austurlandi, mörg hundruð manns, og mjög erfitt að ráða í öll þau störf sem hægt er að bjóða fram, m.a. út af húsnæðisvanda á þeim slóðum. Engu að síður er mikil eftirspurn eftir starfskröftum og það er verið að vinna að úrræðum af ýmsum toga.

Það er efni í alveg sérstaka umræðu að ræða um þróun atvinnuleysis á Íslandi og þess hóps sem er í þeirri stöðu sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega, langtímaatvinnulausir. Það er áhyggjuefni að á sama tíma og margir eru að flytja til landsins til að ganga í störf sem auglýst hafa verið þá eru margir að tapa starfi sem hafa einmitt áður flutt í þeim sama tilgangi til landsins. Við erum að mínu mati með óeðlilega hátt hlutfall útlendinga sem eru að færast í langtímaatvinnuleysi. Það leiðir til þess að við stöndum frammi fyrir alls kyns áskorunum, bæði í húsnæðismálum, í félagslega kerfinu, sveitarfélögin verða fyrir ýmiss konar þrýstingi, þetta getur leitt til ýmiss konar vandamála í menntakerfinu og annars staðar, fyrir innviði samfélagsþjónustunnar. Við því verður með einhverjum hætti að bregðast. Það er ekki góð þróun að fólk flytji til landsins til að fara í störf, sé skömmu síðar komið í atvinnuleysi og nýir flytji til landsins í staðinn til að fylla gömlu störfin. Því miður erum við að sjá einhverja vísbendingu um að þetta eigi sér stað og við því verður að bregðast. En meginsvarið við spurningunni er í raun og veru atvinnustigið og mikil eftirspurn eftir starfskröftum.