152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð bara að segja eins og er, ég veit ekki hvernig ég á að bregðast við þessu. Mér finnst eins og ríkisstjórnin sé að setja brosplástur á galopið sár, blæðandi sár. Ég get ekki séð hvernig þetta á að virka fyrir þá sem eiga að fá þetta. Jú, þeir þakka fyrir hverja einustu krónu, þeir þurfa á hverri einustu krónu að halda. Ég var á fundi með Öryrkjabandalaginu í gær, kjarahópi. Þar kom skýrt fram að þessi hækkun, 3% hækkun, skilar 8.000 kr. til þeirra sem verst standa, 5.000 kr. eftir skatta. Á sama tíma benti einstaklingur, með nákvæmlega þessar tekjur, 219.000 kr. útgreiddar, mér á að hann væri að fá 17.000 kr. hækkun á húsaleigu. Það er nýjasta hækkunin, 17.000 kr. hækkun. Ef við tölum um þessar 5.000 kr. þá eru 12.000 kr. eftir. Svo er það matvælahækkun. Hvernig í ósköpunum sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þessir einstaklingar eigi að geta borgað leigu? Hann talar um kaupmátt. Getur hann upplýst mig: Hvað er kaupmáttur verst settu einstaklinganna, sem ég er að tala um, mikill? Telur hæstv. ráðherra virkilega að þessir einstaklingar hafi fengið aukinn kaupmátt? Og telur hann að með því að setja þessi 3% inn fái þessi hópur einhvern kaupmátt?