152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum hér að boða aðgerðir sem koma strax til framkvæmda. Þegar horft er til lengri tíma vil ég bara vísa til vinnunnar sem félagsmálaráðherra hefur haft í gangi undanfarin misseri. Ég bind miklar vonir við að okkur takist að innleiða umbætur á tryggingakerfi öryrkja á komandi misserum sem myndi fela í sér ákveðna kerfisbreytingu sem ætti að koma öllum til góða og við myndum draga mjög verulega úr skerðingum í kerfinu í þágu þess að opna fyrir möguleika á aukinni atvinnuþátttöku þeirra öryrkja sem eiga á annað borð möguleika til slíks. Það verður að viðurkennast að fyrir þá sem hafa einhverja starfsgetu, þótt takmörkuð sé, þá er kerfið eins og það er smíðað í dag með allt of margar hindranir og litla hvata. Það falla of margar krónur sem fólk vinnur sér inn niður dauðar við það að réttindin skerðast í kerfinu. Þetta er, held ég, stóra framfaramálið sem við bíðum eftir að hrinda í framkvæmd.