152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:18]
Horfa

Helga Þórðardóttir (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er verið að ráðast í mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins með því að hækka húsnæðisbætur um 10% en þær hafa ekki hækkað síðan í byrjun árs 2018. Á sama tíma hefur leiga hækkað um 20%. Sérstakur barnabótaauki, að fjárhæð 20.000 kr., verður greiddur út 1. júlí. Þeir sem þiggja bætur úr almannatryggingakerfinu fá 3% hækkun 1. júní. Þessi 3% hækkun, þó hækkun sé, mun ekki auka kaupmátt þessa hóps vegna þess að verðbólgan hefur nú þegar étið hækkunina upp. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Kom aldrei til greina að hafa þessi 3% afturvirk eins og húsnæðisbæturnar? Hefði ekki líka verið hægt að hafa eingreiðslu til þeirra verst settu líkt og gert var í Danmörku en nú fá lífeyrisþegar þar eingreiðslu upp á 90.000 kr.?